Njarðvíkingar unnu sinn annan deildarleik í röð í kvöld þegar Haukar heimsóttu Ljónagryfjuna í Subway-deild karla. Jafn og spennandi leikur og nokkuð um stimpingar þar sem heimamenn mörðu seiglusigur 81-77.
Chaz Williams fór fyrir Njarðvíkingum í kvöld með 28 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar en Daniel Love var stigahæstur Hauka með 21 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar.
Haukar byrjuðu betur, komust í 1-8 en heimamenn í Njarðvík rönkuðu fljótt við sér og leiddu 21-18 að loknum fyrsta leikhluta. Áfram var jafnt á öllum tölum í öðrum leikhluta en Njarðvíkingar leiddu 38-39 í hálfleik. Chaz var stigahæstur hjá Njarðvík í hálfleik með 11 stig en Osku með 13 í liði Hauka.
Haukar voru sterkari í þriðja, settu 30 stig í leikhlutanum og komust yfir og leiddu 66-68 fyrir fjórða og síðasta leikhluta eftir flautukörfu frá Daniel Love. Fjórði leikhluti var ekki síður spennandi, Njarðvík leiddi 77-75 þegar tvær og hálf mínúta voru til leiksloka. Þorvaldur Orri átti svo ein af flottari tilþrifum leiksins þegar hann óð upp með endalínunni og tróð yfir Haukavörnina og kom Njarðvík í 81-75 og mínúta til leiksloka. Þarna hafðist það fyrir heimamenn sem fögnuðu tveimur rándýrum stigum í einstaklega jafnri deildarkeppni.
Næsti deildarleikur Njarðvíkinga er gegn Hetti á Egilsstöðum þann 18. janúar næstkomandi en Haukar fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn í Ólafssal þann 19. janúar.