Njarðvík og Tindastóll lokuðu þriðju umferð Subwaydeildar karla í kvöld og framan stefndi í spennandi leik. Er líða tók á glímuna stungu Njarðvíkingar af og unnu öruggan 91-68 sigur gegn gestunum úr Skagafirði. Dedrick Basile var maður leiksins með 25 stig, 4 fráköst og 8 stoðsendingar.
Fyrir leik var ljóst að bakkarabræðurnir Sigtryggur Arnar og Pétur Rúnar yrðu ekki með vegna meiðsla og það átti eftir að koma Stólunum í koll. Að sama skapi var Nico Richottti mættur á nýjan leik í búningi nr. 5 fyrir Ljónin og lét strax fyrir sér finna.
Í fjarveru Péturs og Sigtryggs voru það Woods og Badmus sem leystu það verkefni að koma boltanum upp völlinn fyrir gestina. Það leystu þeir ágætlega í fyrri hálfleik svona í ljósi þess að leika svolítið út úr stöðu.
Alls fimm T-villur fuku á loft í fyrri hálfleik, það var víða glímt en Njarðvíkingar leiddu 24-20 eftir fyrsta leikhluta þar sem Oddur Rúnar Kristjánsson var að hitta vel. Í öðrum leikhluta tók Dedrick Basile völdin fyrir Njarðvík og heimamenn leiddu 52-37 í hálfleik. Basile með 15 og Oddur 12 í leikhléi en Woods með 10 og Badmus 9 fyrir Stólana.
Njarðvíkingar lögðu sterkan grunn að sigri sínum í þriðja leikhluta, hæfni Stólanna til að stýra leiknum fjaraði á braut þegar Woods og Badmus nánast hættu að koma upp með boltann. Basile lék þá lausum hala gegn yngri og óreyndari leikmönnum Tindastóls og útkoman 20 tapaðir boltar hjá Skagfirðinum eftir 28 mínútna leik. Staðan 64-41 þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af þriðja. Þegar þriðji var á enda var munurinn kominn í 30 stig, 81-51, og það sem átti að vera föstudags-naglbítur var orðið að formsatriði fyrir heimamenn að kveða í kútinn.
Lokatölur reyndust svo 91-68 eða 23 stiga sigur Njarðvíkinga sem er stærsti sigur þeirra í Ljónagryfjunni á Tindastól síðan 2010.
Maður leiksins: Dedrick Basile
Í fjórðu umferð heimsækja Njarðvíkingar Stjörnuna í Ásgarð en Tindastóll fer á Egilsstaði og mætir Hetti.