Nýliðar Hauka lögðu KR í kvöld í 3. umferð Subway deildar karla, 83-108. Eftir leikinn eru Haukar taplausir í efsta sæti deildarinnar á meðan að KR er í 12. sætinu án stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar.
Fyrir leik
Nýliða Hauka höfðu farið gífurlega vel af stað á tímabilinu og unnið fyrstu tvo leiki sína gegn Hetti og Þór á meðan að KR hafði tapað báðum leikjum sínum, gegn Grindavík og Breiðablik.
Gangur leiks
Það voru nýliðarnir úr Hafnarfirði sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Með 14 fyrsta leikhluta stigum frá miðherja sínum Norbertas Giga ná þeir að vera skrefinu á undan inn í annan leikhlutann, 17-24. Haukar opna annan fjórðunginn svo á tveimur þristum frá Hilmari Smára Henningssyni og einum frá Daniel Mortensen og eru komnir 16 stigum yfir eftir aðeins tæplega 12 mínútna leik, 17-33. Undir lok hálfleiksins hóta Haukar að hlaupast á brott með leikinn, en KR gerir vel að halda í fenginn hlut til búningsherbergja í hálfleik, 35-51
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Jordan Semple með 10 stig á meðan að Norbertas Giga var kominn með 17 fyrir Hauka.
Heimamenn í KR mæta svipað vonlausir til leiks í upphafi seinni hálfleiks og þeir höfðu endað þann fyrri. Sóknarlega datt ekkert hjá þeim og á hinum enda vallarins virtust Haukar aðeins þurfa 1-2 einfaldar sendingar sín á milli til þess að fá galopin skot. Haukar fara langleiðina með að tryggja sér sigurinn undir lok þriðja leikhlutans, eru 24 stigum yfir fyrir þann fjórða, 56-80. Smá lífsmark virðist vera í KR í upphafi lokaleikhlutans þar sem þeir nokkuð snögglega koma forystu Hauka í 19 stig. Það áhlaup rennur þó nokkuð snögglega út í sandinn, Haukarnir stöðva blæðinguna, læsa klóm sínum aftur í leiknum og sigra að lokum mjög svo örugglega, 83-108.
Atkvæðamestir
Bestur í liði KR í dag var Þorvaldur Orri Árnason með 23 stig og 5 fráköst. Fyrir Hauka var Norbertas Giga atkvæðamestur með 30 stig og 13 fráköst.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst þann 28. okróber. KR heimsækir Þór í Icelandic Glacial Höllina í Þorlákshöfn á meðan að nýliðar Hauka fá Íslandsmeistara Vals í heimsókn.