spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaMeistarar Njarðvíkur stungu af í fjórða leikhluta

Meistarar Njarðvíkur stungu af í fjórða leikhluta

Njarðvík og Breiðablik buðu upp á fjörugan leik í Ljónagryfjunni í kvöld þegar liðin mættust í fimmtu umferð Subwaydeildar kvenna. Líf og fjör, hart barist fyrstu þrjá leikhlutana þar sem jafnræði var með liðunum en í þeim fjórða stakk Njarðvík af log lokaði leiknum 94-79.

Raquel Laniero fór mikinn hjá Njarðvík í kvöld með 34 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar en Sanja Orozovic var atkvæðamest hjá Blikum með 21 stig og 5 fráköst.

Njarðvíkingar léku aftur án Lavinia De Silva sem er að glíma við smávægileg meiðsli en grænar vonast til þess að hún komist á parketið á næstu dögum.

Raquel Laniero lét vel fyrir sér finna frá fyrstu mínútu og var með 13 stig eftir fyrsta leikhluta sem Njarðvík leiddi 26-13. Sanja að sama skapi beittust hjá Blikum sem komu mun ákveðnari inn í annan leikhluta og minnkuðu muninn í 47-44 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Blikar voru ívið sterkari í þriðja leikhluta og staðan 67-67 að honum loknum og stefndi allt í æsispennandi lokasprett. Annað kom þó á daginn þar sem varnarleikur Njarðvíkinga small saman og unnu meistararnir fjórða leikhluta 27-12 og leikinn því 94-79.

Raquel Laniero var að eiga sinn besta deildarleik fyrir Njarðvík með glæsilegar tölur en í fjarveru Lavinia De Silva falla ýmsar skyldur á herðar annarra leikmanna liðsins og virtust Njarðvíkingar leysa fjarveru hennar mjög vel. Lovísa Bylgja Sverrisdóttir kom t.d. sterk inn af bekknum og fimm leikmenn Njarðvíkurliðsins gerðu 10 stig eða meira í kvöld.

Hjá Blikum var Sanja atkvæðamest eins og áður greinir en þar voru líka margir að leggja í púkkið þar sem fimm leikmenn liðsins voru með 10 stig eða meira í kvöld. Má þar t.d. nefna að Rósa Björk Pétursdóttir átti virkilega sterkar rispur og skilaði 16 stigum í kvöld og tók 3 fráköst.

Í næstu umferð fara Blikar í heimsókn í Skógarsel og mæta ÍR en Njarðvíkingar fá stórleik gegn Haukum í Ólafssal en þessi lið léku einmitt eftirminnilegan oddaleik um titilinn í Ólafssal á síðasta tímabili.

Tölfræði leiks
Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -