spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaJón Axel kominn með félagaskipti til Grindavíkur

Jón Axel kominn með félagaskipti til Grindavíkur

Háværasta slúðursaga síðustu vikna, að Jón Axel Guðmundsson væri á leið til Grindavíkur virðist vera orðið að veruleika. Í morgun fékk hann félagaskipti yfir til Grindavíkur samkvæmt félagaskiptasíðu KKÍ.

Jón Axel ætti að vera öllum hnútum kunnugur í Grindavík en þar lék hann síðast árið 2016 en hefur síðan þá leikið með Davidson háskólanum í Bandaríkjunum og nú síðast sem atvinnumaður í Þýskalandi og Ítalíu.

Jón Axel var til æfinga hjá NBA liðum í sumar og bauðst að leika með G deildar liðum í Bandaríkjunum en virðist hafa ákveðið að taka slaginn með uppeldisfélagi sínu, Grindavík í Subway deild karla.

Enn hefur engin formleg tilkynning borist frá Grindvíkingum og verður áhugavert að heyra hvort Jón Axel verði lengi hér á landi eða hvort stoppið sé stutt meðan hann leitar sér að félagi í evrópu. Hvort sem er munu körfuboltaáhugamenn fá að njóta þess að fylgjast með Jóni Axeli á íslenskri grundu, tímabundið að minnsta kosti næstu vikur.

Grindavík tekur á móti Keflavík næsta fimmtudagskvöld og ætti Jón Axel því að vera klár í slaginn fyrir þá viðureign.

Fréttir
- Auglýsing -