Nú fyrir helgina lak starfsmaður meistara Golden State Warriors í NBA deildinni myndbandi af stjörnuleikmanni liðsins Draymond Green ráðast á annan leikmann þeirra Jordan Poole. Atvikið átti sér stað á æfingu liðsins, en á því sést greinilega að leikmennirnir eiga einhver samskipti áður en að Draymond kýlir Jordan nokkuð fast í andlitið.
Draymond baðst afsökunar á atvikinu opinberlega í gær. Sagði hann enn frekar “Það sem ég gerði á æfingunni síðastliðinn miðvikudag var rangt, ég hef beðið liðið afsökunar og ég hef beðið Jordan afsökunar” Þá bætti stjörnuleikmaðurinn við að hann myndi nú yfirgefa liðið í nokkra daga til þess að það gæti jafnað sig.
Ljóst er að atvikið kemur á versta tíma fyrir meistara Warriors. Titilvörn þeirra rúllar af stað eftir aðeins 9 daga, þar sem þeir taka á móti Los Angeles Lakers í opnunarleik tímabilsins þann 18. október, en samkvæmt heimildum mun Draymond að minnsta kosti missa af fyrstu tveimur leikjum þeirra nú í byrjun leiktíðar.