spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaSigur á Ármenningum fyrir framan troðna stúku á Flúðum! 

Sigur á Ármenningum fyrir framan troðna stúku á Flúðum! 

Ármenningar mættu funheitir á Flúðir í kvöld með tvo góða sigra í farteskinu á meðan heimamenn mættu hálfvængbrotnir eftir að hafa orðið undir í tveimur Suðurlandsslögum í upphafi móts. Það má einmitt segja að sú ára beggja liða hafi verið greinileg í upphafi leiksins. Hinn reynslumikli Austin Bracey beið ekki boðanna og sökkti djúpum þrist óvaldaður beint á móti körfunni í fyrstu sókn Ármenninga og setti þar með tóninn fyrir sína frammistöðu í leiknum. Austin og Borgnesingurinn Kristófer Gíslason mættu vel nettengdir og hittu nánast úr hverju skoti til að byrja með.

Hrunamenn réðu illa við gestina á þessum kafla og villurnar hrönnuðust upp, Friðrik Heiðar var greinilega settur Austin til höfuðs en var snemma kominn með tvær villur og þurti að tylla sér á bekkinn. Sömuleiðis fékk Sam Burt snemma sína aðra villu. Í kvöld var hins vegar mun betri stjórn á Hrunamannaliðinu þar sem þjálfarinn einbeitti sér eingöngu að þjálfarahlutverkinu og nýtti bekkinn mun betur en að undanförnu. Hinir ungu Óðinn Freyr Árnason og Hringur Karlsson létu strax að sér kveða þegar þeir fengu traustið og skiluðu mikilvægu hlutverki.  Haukur Hreinsson skilaði aftur mjög góðum mínútum fyrir Hrunamenn og þegar líða tók á leikhlutann náðu heimamenn yfirhöndinni í leiknum. Staðan að loknum 1.leikhluta 27-25 

Í 2.leikhluta voru Hrunamenn klárlega sterkara liðið og með aðeins meira sjálfstrausti í skotum hefði liðið getað leitt með meiri mun í hálfleik. Í Ármenninga vantaði hins vegar ekkert sjálfstraust í skotum og Austin Bracey var kominn með hvorki fleiri né færri en 25 stig þegar flautað var til hálfleiks. Hjá Hrunamönnum dró Ahmad Gilbert vagninn en það mikilvægasta var að allir leikmenn Hrunamanna sem spiluðu í fyrri hálfleik komust á blað í stigaskorun og áttu stóran þátt í því að forystan í hálfleik var 11 stig, 58-47.  

Í síðari hálfleik hægðist heldur á leiknum, Hrunamenn fóru meira inn í teig og nýttu sér þá Yngva og Sam á blokkinni. Stóri leikmaður Ármenninga var kominn með 3 villur í hálfleik þannig að skiljanlega þróaðist leikurinn aðeins í þá átt. Uppleggið gekk misvel í sókn en stóri munurinn á hálfleikunum var varnarleikur Hrunamanna á skyttur Ármenninga og náðu heimamenn að halda Austin Bracey í 8 stigum í síðari hálfleik. Gestirnir náðu að laga aðeins stöðuna og staðan fyrir lokafjórðunginn var 75-66. 

Í fjórða leikhlutanum fór Ahmad Gilbert fyrir Hrunamönnum í sókninni, og eftir að Will Thompsson fékk sína 5.villu lönduðu heimamenn öruggum sigri 96-83 

Ahmad Gilbert átti sannarlega stórleik gegn Ármenningum, skoraði 45 stig, tók 14 fráköst, stal 7 boltum og gaf 3 stoðsendingar. Það eru 50 framlagsstig! Sam Burt kom einnig með stórt framlag, 19 stig og 16 fráköst. Allir þáttakendur Hrunamanna voru þó með gott framlag sem tryggði þeim sigurinn.  

Gestirnir áttu góða spretti og spiluðu inn á styrkleika sína, en þeir söknuðu nokkurra lykilmanna í leiknum í kvöld. Ármenningar heldu sér inni í leiknum með virkilega góðri skotnýtingu og þar fóru Austin Bracey með 33 stig og Kristófer Gíslason, 15 stig, fremstir í flokki. Heimamenn gátu líka klappað aðeins fyrir þeim bláu þegar Hrunamaðurinn Halldór Fjalar Helgason setti niður gott 3ja stiga skot í 3ja leikhluta.  

Hér er hægt að skoða tölfræði hluta leiksins betur

Í kvöld sýndu Hrunamenn og Ármenningar frábæran samhug eftir erfiða viku í Hrunamannahreppi. Fjölmenni var á áhorfendapöllum og góður andi í íþróttahúsinu. Leikmenn og þjálfarar beggja liða lögðu sitt á vogarskálarnar og borguðu aðgangseyrinn sem fer allur óskiptur til Pieta samtakanna. Alls söfnuðust 254 þúsund krónur á leiknum sem lagðar verða inn hjá Pieta samtökunum í nafni Kristins Þórs Styrmissonar fyrriverandi iðkanda með yngri flokkum Hrunamanna.

Umfjöllun / Árni Þór

Myndir / Birgitte Bruger

Viðtöl / Matthías Bjarnason

Fréttir
- Auglýsing -