spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR lagði Njarðvík óvænt í fyrsta leik tímabilsins

ÍR lagði Njarðvík óvænt í fyrsta leik tímabilsins

ÍR lagði Njarðvík í kvöld í fyrsta leik liðanna í Subway deild karla, 83-77. Úrslit sem koma nokkuð á óvart, þar sem að ÍR var spáð falli nú á dögunum en deildarmeisturum Njarðvíkur í efri hluta deildarinnar.

Gangur leiks

Heimamenn í ÍR byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Ekkert virtist detta hjá gestunum frá Njarðvík og náðu heimamenn að ganga eilítið á lagið. Náðu mest 8 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, en þegar hann er á enda er staðan 19-13. Með sterku 15-5 áhlaupi nær Njarðvík að snúa taflinu sér í vil á fyrstu mínútum annars leikhlutans. ÍR gera vel að svara því og ná aftur forystunni áður en hálfleikurinn er á enda. Staðan 41-35 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stigahæstur í liði ÍR í fyrri hálfleiknum var Tylan Birts með 15 stig á meðan að Mario Matasovic var kominn með 10 fyrir Njarðvík.

Heimamenn halda áfram að gera vel í upphafi seinni hálfleiksins. Bæta enn við forystu sína með þristum frá Sigvalda Eggertssyni og Ragnari Bragasyni og ná sinni mestu forystu í þriðja leikhlutanum, 12 stigum. Njarðvík gerir þó ágætlega að missa þá ekki of langt frá sér og er munurinn aðeins 7 stig fyrir lokaleikhlutann, 61-54.

Njarðvík nær aftur að minnka muninn í upphafi lokaleikhlutans og eru aðeins stigi fyrir aftan eftir fyrstu þrjár mínútur fjórðungsins, 63-62. ÍR setur þá fótinn aftur á bensíngjöfina og eru aftur komnir 7 stigum yfir þegar um fimm mínútur eru eftir af leiknum, 72-65. Njarðvíkingum tekst ekki að gera leikinn spennandi á lokamínútunum, ÍR heldur 6-10 stiga forystu sinni og sigra að lokum með sex stigum, 83-77.

Atkvæðamestir

Fyrir ÍR var Tylan Birts bestur með 23 stig, 14 fráköst og Martin Passoja bætti við 20 stigum.

Hjá Njarðvík var það Mario Matasovic sem dró vagninn með 16 stigum og 10 fráköstum og Dedrick Basile bætti við 21 stigi.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 13. október. ÍR gegn Tindastóli í Síkinu á Sauðárkróki á meðan að Njarðvík mætir Hetti á Egilsstöðum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Fréttir
- Auglýsing -