Álftnesingar héldu út gegn Hamri

Álftanes lagði Hamar í kvöld í Forsetahöllinni í fyrsta leik sjöundu umferðar Subway deildar karla, 86-79. Eftir leikinn er Álftanes í 3. sætinu með 4 sigra og 2 töp á meðan að Hamar vermir botnsætið, enn án sigurs eftir jafn marga leiki.

Það voru heimamenn í Álftanesi sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 25-12. Gestirnir úr Hveragerði náðu aðeins áttum undir lok fyrri hálfleiksins, en munurinn er þó enn 10 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 48-38.

Álftnesingar ná aftur að setja fótinn á bensínið í upphafi seinni hálfleiksins og eru með þægilega 17 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 68-51. Undir lok leiks gerir Hamar svo aftur vel að minnka forskot heimamanna. Ná næstum því að stela leiknum á lokamínútunum, en allt kemur fyrir ekki. Álftanes sigrar að lokum með 7 stigum, 86-79.

Atkvæðamestur fyrir Álftanes í leiknum var Douglas Wilson með 35 stig og 6 fráköst. Honum næstur var Haukur Helgi Pálsson með 23 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.

Bestur í liði Hamars var Franck Kamgain með 25 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar.

Tölfræði leiks