Stjarnan og Keflavík áttust við í 4. umferð Subway-deildarinnar í kvöld. Gestirnir frá KEF-City ættu að hafa rífandi gott sjálfstraust eftir tvo frábæra sigra að undanförnu, fyrst gegn öflugum Valsmönnum í deildinni og svo gegn Njarðvík í bikarnum. Stórkostlegir leikir báðir tveir. Reyndar hafa Keflvíkingar bara ekkert verið að tapa á þessu tímabili, eingöngu og aðeins á Króknum gegn Íslandsmeisturunum.
Arnar Guðjóns fullyrti í viðtali eftir ósigurinn gegn Þór í deildinni að ef liðið héldi áfram á sömu braut og með batnandi heilsufari myndi það fara að vinna leiki. Afskaplega ánægjulegt er að hafa séð það raungerast í síðustu tveimur leikjum, gegn Hamri í blómabænum og Þór Þ. í bikarnum! Heilsufarið er samt enn við það sama, en spennandi verður að sjá í kvöld James Ellisor, bandarískan leikmann sem var að lenda í Garðabænum!
Kúlan: Það heyrist hávært lestarljóð frá Kúlunni góðu þennan daginn. Svo birtist ófögur mynd af hestvagni sem hefur orðið fyrir lest. Þetta segir okkur að Keflavíkurhraðlestin er að endurfæðast! Hún sýnir sig í kvöld með því að keyra yfir Garðabæjarhestvagninn, slátrun 83-105.
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Júlíus, Ellisor, Kanervo, Hlynur
Keflavík: Martin, Jaka, Dolezaj, Siggi P., Oman
Gangur leiksins
Heimamenn spýttust af stað með þristi frá Kanervo og engu líkara en að Stjörnumenn væru í eltingarleik við barn, svo hræðileg var vörn Keflvíkinga. Ægir og Kanervo skoruðu að vild og heimamenn leiddu 19-9 eftir 5 mínútna leik. Remy Martin hélt sínum mönnum inn í þessu en hann virðist alltaf getað skorað alveg sama hvernig vörn andstæðinganna er. Kúlan var þarna farin að leita að holu til að skríða ofan í, en áður en til þess kom löguðu gestirnir stöðuna hratt og örugglega. Það hægðist mjög á stigaskori Stjörnupilta en Ægir og Kanervo voru þeir einu sem settu meira en eina körfu fyrir heimamenn allan fyrri hálfleikinn. Fleiri lögðu í púkkið fyrir gestina og Siggi P jafnaði leikinn í 21-21 með þristi þegar 2 mínútur voru eftir af fyrsta fjórðung. Leikar stóðu jafnir 26-26 að honum loknum.
Keflvíkingar hristu úr sér epli Iðunnar milli leikhluta og spiluðu vörn eins og fullvaxta karldýr í öðrum leikhluta! Allt í einu var orðið erfitt fyrir Stjörnuna að skora, piltarnir úr Bítlabænum stálu boltum og fengu auðveld stig í kjölfarið. Eftir tæplega 2 mínútur leiddu gestirnir 26-34 og Arnar tók leikhlé. En Keflavíkurlestin hélt áfram á fullri ferð og linntu ekki látum fyrr en í stöðunni 31-49, 18 stiga forskot og tæpar 4 til leikhlés. Heimamenn stöðvuðu lekann en lágu þó 16 stigum undir í hálfleik, 38-54. Ægir var kominn með 16 stig en Remy Martin 18 fyrir Keflavík!
Það var dulítil værukærð yfir gestunum í byrjun seinni hálfleiks og Stjörnumenn áttu fyrstu tvær körfur leikhlutans. Það var þó ekki fyrr en um miðjan leikhlutann sem Stjarnan gerði sig líklega til að gera leik úr þessu með fjögurra stiga sókn frá Addú þar sem hann minnkaði muninn í 52-63. Fleiri fóru að setja stig á töfluna fyrir heimamenn, fyrrnefndur Addú, Tommi og Júlíus sem sótti grimmt gegn Magnúsi Péturs hjá Keflavík. Fyrir lokaátökin stóðu leikar 60-71 og allt opið enn.
Hlynur gaf tóninn með þremur stigum í byrjun fjórða og vörnin hjá Stjörnunni var gersamlega á útopnu! Þegar 7:33 voru eftir var aðeins 6 stiga munur, 65-71 og Pétur tók leikhlé. Það virtist ekki hafa hleypt lífi í gestina sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Þegar 6 mínútur lifðu leiks henti meistari Hlynur í annan þrist og minnkaði muninn í 72-75! Um það bil þremur mínútum síðar setti Þrumu-Þór niður svakalegan þrist og kom heimamönnum yfir, 79-78! Undirritaður hafðu þá tilfinningu að þarna hafi hreinlega slokknað á sólinni hjá gestunum úr Sunny-Kef. Ægir Þór setti í næstu sókn 2 stig með glæsilegu gegnumbroti og kláraði svo leikinn í sókninni þar á eftir með enn einum þristi fyrir heimamenn. Staðan var þá orðin 84-78, aðeins rúm mínúta eftir af leiknum og úrslit hreinlega ráðin! Eftir 3 stig frá báðum liðum enduðu leikar 87-81 í frábærum viljasigri Stjörnumanna með Þrumu-Þór í broddi fylkingar.
Menn leiksins
Ægir Þór var gersamlega sturlaður í þessum leik! Hann setti 32 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 3 fráköst. Það var eins og að honum yxi ásmegin eftir því sem á leið, spilaði manna best varnarlega líka og setti mikilvægustu stigin í lokin!
Remy Martin var bestur gestanna með 29 stig, 3 stoðsendingar sem og fráköst.
Kjarninn
Kristján Fannar er kominn í búning, Ellisor mættur frá Bandaríkjunum og gerði ágætlega m.v. fyrsta leik, það styttist í Kone og Dagur er væntanlegur einhvern tímann á næstunni. Það er ekki amalegt að hugsa til þess þegar liðið plummar sig líka svona stórvel nú þegar. Arnar og Stjörnumenn geta heldur betur verið sáttir, andinn í liðinu virðist vera stórgóður og allir körfuboltaáhugamenn hljóta nú að vilja sjá næsta leik hjá liðinu.
Naflinn spurði Pétur eftir sigurinn á Val hvort fram hafi farið rán um hábjartan dag. Það var svolítið þannig óneitanlega, og Keflvíkingar endurtóku leikinn í Njarðvík. En að þessu sinni voru það Keflvíkingar sem þurftu að lúta í gras. Ég ætla ekki að segja rændir því þeir tóku bara fram veskið eftir leikhléið og otuðu því kæruleysilega að andstæðingum sínum. Það er ekki skemmtilegt ef það er leiðinlegt – en stundum þarf að hafa pínu leiðinlegt til að geta haft skemmtilegt! Það þarf t.d. að spila vörn, helst allan leikinn, djöflast og vilja! Það var skortur á því hjá gestunum í síðari hálfleik í kvöld.