Ljósið og Álftanes hafa framlengt samstarf sitt sem hófst á síðasta keppnistímabili. Markmið samstarfsins er að auka vitund á starfsemi samtakanna og fjölga svokölluðum Ljósavinum. Í því tilefni er boðað til góðgerðaleiks í kvöld fimmtudag, þegar liðið tekur á móti Njarðvíkingum í Forsetahöllinni. Aðgangseyrir rennur óskiptur til samtakanna og munu leikmenn og forsvarsmenn deildarinnar afhenda ávísun að andvirði einnar milljónar króna, líkt og gert var á síðasta keppnistímabili. Halldór Kristmannsson, sem hefur verið öflugur bakhjarl körfuboltans á Álftanesi, leggur fram myndarlegt fjárframlag til stuðnings samstarfsins.
„Við sem nýliðar í efstu deild körfuboltans viljum nýta þá athygli sem okkur er veitt til góðs. Markmiðið er bæði að styðja við bakið á, og vekja athygli á, starfsemi Ljóssins, sem og að vinna gott starf í þágu körfuboltans og samfélagsins á Álftanesi. Við búumst við troðfullri Forsetahöll á fimmtudag,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari liðsins.
Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek.
Erna Magnúsdóttir, forstöðumaður Ljóssins segir að það fagnaðarefni að samstarf Ljóssins og Álftaness haldi áfram en mikil áhersla er lögð á hreyfingu og íþróttir í starfi Ljóssins. “Okkur þykir mjög vænt um það að Álftanes beri merki okkar á sínum treyjum og auki þar með sýnileika okkar í samfélaginu.”
Hægt er að gerast styrktaraðili samtakanna með því að skrá sig sem Ljósavin eða leggja inn á styrktarreikning: 0130-26-410420, kt. 590406-0740. Leikur Álftaness og Njarðvíkur í Subway deild karla hefst kl. 19:15 í kvöld og er fólk hvatt til að mæta snemma til leiks þar sem búist er við fullu húsi.