Blikar lítil fyrirstaða fyrir nýliða Þórs í Smáranum

Nýliðar Þórs Akureyri lögðu Breiðablik í kvöld í 6. umferð Subway deildar kvenna.

Eftir leikinn er Þór um miðja deild með þrjá sigra og þrjú töp á meðan að Breiðablik leitar enn að fyrsta sigrinum eftir fyrstu sex umferðirnar.

Þór nær strax í fyrsta leikhluta að byggja sér upp 13 stiga forystu, 15-28. Blikar ná aðeins að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiksins, en eru þó enn 9 stigum undir þegar liðin halda til búningsherbergja, 40-49. Enn ganga Blikar á lagið í upphafi seinni hálfleiksins og er munurinn kominn niður í aðeins 5 stig fyrir lokaleikhlutann. Í honum ná gestirnir þó að taka öll völd á vellinum og sigla að lokum mjög svo öruggum 21 stigs sigri í höfn, 71-91.

Atkvæðamest fyrir Þór í leiknum var Lore Devos með 26 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Henni næst var Madison Anne Sutton með 22 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Blika var Brooklyn Pannell best með 35 stig, 11 fráköst, 9 stoðsendingar og Ragnheiður Björk Einarsdóttir bætti við 13 stigum og 9 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)