Þór lagði Stjörnuna í gærkvöldi í annarri umferð Subway deildar karla, 80-84.
Þór hefur því unnið einn og tapað einum það sem af er móti á meðan að Stjarnan hefur tapað báðum leikjum sínum.
Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar var súr eftir tap en þó sáttur við sína menn:
Hvernig sérðu þennan leik Arnar?
Bara hörku leikur, hefði getað fallið hvoru megin sem var. Hefði viljað loka fyrri hálfleiknum betur en við gerðum, svekkjandi að fá á sig þarna 4 stig…
…já þeir settu síðustu 6 í fyrri…
…já, en sérstaklega síðustu fjögur sem ég er svekktur með. Þeir voru svo bara sleipari á svellinu hérna í restina, tóku nokkur sóknarfráköst í seinni hálfleik og svona…en ég er stoltur af liðinu, mér fannst menn leggja sig rosalega mikið fram og leggja mikið í leikinn alveg eins og í Njarðvíkunum…ef við höldum svona áfram þá förum við að sigra því orkan í okkur er frábær, við erum að spila vel saman og að spila góðan körfubolta og þetta mun skila sér á endanum.
Akkúrat, það hefur nú ekkert endilega gefist mjög vel hjá liðum að byrja vel í deildinni…
…við erum samt ekki að plana að tapa leikjum í byrjun…!
…nei ætli það! En ef það er einhvern tímann góður tími til að vera í meiðslum þá er það í byrjun tímabilsins…
Bara helst ekki samt! En við höldum bara áfram úr þessu, það er stór leikur á fimmtudaginn sem við ætlum að vinna. Eins og ég segi, mér finnst við vera að spila af krafti, við erum að spila vel saman, orkan er góð og ef það heldur áfram þá fer þetta upp á við, það er 100%!
Ég er sammála því, það er hægt að sjá margt jákvætt í þessum tveimur leikjum þó þeir hafi tapast…
…já pottþétt…
…til dæmis kemur Múli hérna inn í þennan leik og skilar 11 stigum…
Það er akkúrat málið fyrir unga drengi þegar kallið kemur, ég held að hann hafi ekki reiknað með því að vera í einhverjum 15 mínútum í leik tvö á Íslandsmótinu núna, 17 ára, en það er staðan og þá er akkúrat að gera eins og hann gerir að grípa tækifærið og reyna að hlaupa með það.
Eins manns dauði er annars brauð eins og sagt er…
Já, en ég væri til í að fækka dauðunum hérna en það er eins og það er!
Nákvæmlega! Hvernig er staðan á þessum mönnum, hvernig lítur þetta út með Dag, Kristján og Kone?
Það eru svona 4-6 vikur í Kone…2 vikur að lágmarki í Dag og Kristján…sennilega eitthvað lengra í Dag. Þeir þurfa svo auðvitað komast í körfuboltastand, þeir eru búnir að vera meiddir lengi.
Akkúrat, það tekur allt tíma. En þrátt fyrir allt, sæmilega brattur?
Jájá! Ég hef haft það verra en þetta á lífsleiðinni!
Sagði Arnar og undirritaður hlakkar mikið til að sjá Stjörnuliðið fullskipað!