Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn nýliðum Þórs Akureyri í kvöld í Origo höllinni í lokaleik fjórðu umferðar Subway deildar kvenna.
Það voru heimakonur í Val sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 6 stigum að fyrsta leikhluta loknum, 24-18. Gestirnir gera þó vel í að halda í fenginn hlut undir lok fyrri hálfleiksins, en munurinn er enn 6 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-37. Í upphafi seinni hálfleiksins ná heimakonur svo að bæta í og víkka bilið á milli sín og nýliða Þórs fyrir lok þriðja leikhlutans, 62-48. Í lokaleikhlutanum nær Þór svo að minnka bilið og eru þær grátlega nálægt því að koma sér í færi til að stela leiknum undir lokin. Ná að jafna leikinn þegar aðeins nokkrar sekúndur eru eftir, en Ásta Júlía Grímsdóttir setur körfu á lokasekúndunum sem vinnur leikinn fyrir Val, niðurstaðan að lokum 75-73 sigur Íslandsmeistarana.
Atkvæðamest fyrir Val í leiknum var Lindsey Pulliam með 23 stig, 7 fráköst og 4 stolna bolta. Henni næst var Ásta Júlía Grímsdóttir með 10 stig, 10 fráköst og 3 varin skot.
Fyrir nýliða Þórs var það Madison Sutton sem dró vagninn með 16 stigum, 16 fráköstum, 6 stoðsendingum og Lore Devos bætti við 18 stigum, 9 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Bæði lið eru nú um miðja deild, jöfn að stigum, hvort um sig með tvo sigra og tvö töp það sem af er tímabili.
Myndasafn (væntanlegt)