KR tilkynnti í gær að félagið hafði samið við þær Leu Gunnarsdóttiu, Söru Emily Newman, Helenu Haraldsdóttur og Diljá Valdimarsdóttur fyrir komandi átök í fyrstu deild kvenna.
Lea og Diljá eru að upplagi úr KR. Diljá er að koma aftur eftir að hafa verið í námi í Danmörku á síðasta tímabili. Lea sneri aftur til félagsins í fyrra eftir tvö tímabil á Hlíðarenda, og var lykilmaður í liðinu í fyrra aðeins 18 ára gömul. Eftir áramót í fyrra skoraði Lea 9 stig, tók 6 fráköst og skaut 34% fyrir utan þriggja stiga línuna í 5 tilraunum í leik. Lea var valinn í 12 manna lokahóp U20 landsliðs kvenna fyrir Evrópumótið í Makedóníu í sumar.
Helena og Sara eru báðar uppaldar á Ísafirði og spiluðu saman með Vestra upp alla yngri flokka. Helena kom til KR árið 2020 og hefur því spilað með liðinu síðustu 3 tímabil. Þær munu ásamt Diljá spila með sameiginlegu KR og Vals í ungmennaflokki kvenna. Helena hefur spilað bæði með U16 og U18 ára landsliðum Íslands. Sara Emily kemur til liðsins frá Vestra, en á síðasta tímabili skilaði hún 14 stigum að meðaltali í leik fyrir vestan.
Hörður Unnsteinsson eftir að samningar voru í höfn “Það er alveg ofboðslega ánægjulegt að halda þeim Leu og Helenu hjá okkur, og bæta Söru og Diljá við hópinn frá því í fyrra. Fyrir utan að vera allar mjög efnilegar körfuboltakonur, þá passa þær einnig frábærlega í hópinn. Innkoma Diljáar sérstaklega inn á æfingar núna í haust var mikil vítamínsprauta fyrir hópinn, aðallega af því hvað hún er ofboðslega skemmtilegur karakter. Ég hlakka til vetrarins með þeim öllum.”