spot_img
HomeFréttirSiðareglur KKDÍ samþykktar

Siðareglur KKDÍ samþykktar

{mosimage}

Félagar í Körfuknattleiksdómarafélagi Íslands samþykktu á nýafstöðnu dómaraþingi að setja sér siðareglur. www.kkdi.is greinir frá Samþykkt siðareglna hefur verið í umræðunni frá árinu 1997 þegar Kristinn Óskarsson kynnti drög að siðareglum fyrir körfuknattleiksdómara. Drög þessi voru hluti af lokaritgerð Kristins, Heimur dómarans, við Íþróttakennaraskóla Íslands.

Á síðasta dómaraþingi var skipað í siðareglnanefnd sem skilaði af sér tillögu sem var kynnt dómurum síðastliðið haust. Í tillögunni fólust annars vegar siðareglur fyrir körfuknattleiksdómara og hins vegar starfsreglur fyrir siðanefnd. Ákveðið var að leggja tillögurnar fyrir dómaraþing næsta árs.

Stjórn KKDÍ lagði svo siðareglurnar fyrir dómaraþingið nú í maí, með smávægilegum breytingum. Hins vegar var ákveðið að sleppa því að leggja starfsreglur siðanefndar fyrir þingið og fela þess í stað stjórn félagsins að fara með það hlutverk.

Siðareglurnar voru lesnar upp lið fyrir lið, og eftir nokkrar umræður voru þær samþykktar einróma af þingfulltrúum. Ekki er vitað til að aðrir íþróttadómarar hérlendis hafi sett sér sambærilegar skriflegar siðareglur.

Siðareglur Körfuknattleiksdómarafélags Íslands

Körfuknattleiksdómarar sem starfa á Íslandi leggja við drengskap sinn að stuðla að heiðarlegri og drengilegri keppni og leggja sig fram um að efla framgang leiksins.

Skyldur við leikinn og leikreglur:
Dómara ber að láta jafnt yfir alla ganga óháð aldri, kyni, kynþáttum eða nokkrum öðrum atriðum. Hann skal sýna öllum virðingu sem að leiknum koma.

Körfuknattleiksdómari skal:
– bera heilsu, velferð og öryggi þátttakenda leiksins fyrir brjósti
– leggja sig fram um að viðhalda og auka þekkingu sína á leikreglunum og dómaratækni, fylgjast með öðrum dómurum og stefna að framförum í starfi
– muna að leikurinn er mikilvægari en þarfir einstakra leikmanna, þjálfara, áhangenda eða metnaður einstakra dómara
– vera líkamlega og andlega vel á sig kominn til að standast það álag og þær kröfur sem leikurinn gerir til dómara
– vera öðrum fyrirmynd í snyrtimennsku og framkomu sem hæfir þeirri virðingu sem starfið á að njóta
– vera stundvís, og mæta tímanlega fyrir alla leiki
– þegar hann er að störfum vera ákveðinn, kurteis, virðulegur, vingjarnlegur, rólegur og ávallt reiðubúinn, en skal ekki vera dramblátur, hrokafullur, vinur eða félagi
– líta hlutlaust á frammistöðu leikmanna án þess að gera sér í hugarlund hugsanleg úrslit
– taka ákvarðanir í einstaka atvikum á þeim forsendum sem hann þá hefur án tillits til fyrri ákvarðana
– hafa kjark til að dæma á öll brot án tillits til stöðunnar í leiknum eða hugsanlegra áhrifa á framtíðarsamskipti við þátttakendur leiksins
– forðast að ræða einhverja þætti leiksins á niðrandi hátt eða láta keppendum upplýsingar í té um keppinauta
– virða og nota aðeins opinbera túlkun á leikreglum en fara ekki eigin leiðir
– aldrei taka þátt í veðmálum á körfuboltaleiki sem íslensk lið eru aðilar að

Skyldur við forystuna í körfuknattleikshreyfingunni:
Körfuknattleiksdómari skal starfa náið með og nákvæmlega eins og ætlast er til af dómaraforystu þeirri er hann starfar fyrir.

Körfuknattleiksdómari skal:
– virða allar skyldur og samninga þrátt fyrir hugsanleg óþægindi
– gera sér grein fyrir, og hafa í heiðri, að öll störf dómara eru mikilvæg
– leitast við að halda kostnaði við störf, ferðir og uppihald í lágmarki og leggja aðeins fram reikninga sem eru sannarlega samkvæmt gildandi gjaldskrá
– ekki nýta sér starfið, eða ferðir á vegum þess, sér til persónulegs framdráttar, hvort heldur um er að ræða fjárhagslegan eða annað
– eftir fremsta megni forðast hvað það sem getur leitt til hagsmunaárekstra, hvort sem er raunverulegra eða mögulegra; þannig skal dómari t.d. forðast að dæma leiki þar sem nánustu fjölskyldumeðlimir taka þátt, s.s. systkini, foreldrar, börn eða maki dómarans.

Skyldur við stéttina:
Körfuknattleiksdómari skal gæta heiðurs dómarastéttarinnar jafnt í starfi sem og öðrum athöfnum. Hann skal stuðla að samheldni innan stéttarinnar með því að sýna öðrum dómurum virðingu, umhyggju, kurteisi og samstarfsvilja.

Körfuknattleiksdómari skal:
– standa með og virða ákvarðanir meðdómara síns
– hafa gott samstarf við aðra körfuknattleiksdómara
– í allri framkomu taka tillit til annarra körfuknattleiksdómara og vernda faglegt álit þeirra gegn óréttmætum ádeilum, illkvittnu umtali eða röngum ásökunum
– ekki fjalla á opinberum vettvangi um getu einstakra leikmanna, liða eða dómara

Körfuknattleiksdómurum ber ekki að líta á að framangreindar reglur séu tæmandi um skyldur dómara. Upp geta komið tilvik sem reglur þessar ná ekki yfir með beinum hætti. Dómurum er bent á að leysa úr slíkum málum með hagsmuni stéttarinnar, leiksins og forystunnar í huga, á þann hátt bestan er
samviska þeirra býður þeim.

Stjórn KKDÍ fer með hlutverk siðanefndar, eða skipar í siðanefnd eftir því sem þurfa þykir.

Frétt af vef www.kkdi.is

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -