{mosimage}
Napoli beið lægri hlut fyrir Bologna í oddaleik liðanna í undanúrslitum ítölsku deildarinnar, 103-83. Jón Arnór átti góðan leik og skoraði 19 stig. Mikill hiti var meðal leikmanna og stuðningsmanna samkvæmt þremur KR-ingum sem voru á leiknum og þurftu stuðningsmenn Napoli lögreglufylgd úr höllinni að leik loknum. www.kr.is/karfa greinir frá.
Jón Arnór var allt í öllu í upphafi leiks hjá Napoli, en hann skoraði 13 stiga í fyrsta leikhluta, en staðan var 30-28 Bologna í vil. Jón lenti í ryskingum við einn leikmanna Bologna sem fann sig knúinn til skella okkar manni í gólfið, í kjölfarið var púið á Jón í hvert skipti sem hann snerti boltann. Í öðrum leikhluta náðu heimamenn góðum kafla sem skilaði þeim 18 stiga forskoti í hálfleik 62-44.
Gestirnir náðu að minnka muninn í þriðja leikhluta en þegar þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleik uppskar Jón Arnór tæknivillu og sat á bekknum þar til um miðjan fjórða leikhluta. Þrátt fyrir heiðarlega tilraun gestanna til að jafna gekk það ekki og unnu Bologna sannfærandi sigur 103-83. Á lokamínútu leiksins fékk Jón Arnór sína fimmtu villu við griðarlegan fögnuð stuðningsmanna heimaliðsins.
Bræðurnir Guðmundur Þór og Helgi Már Magnússynir voru staddir á leiknum ásamt Hjalta Kristinssyni. Í stuttu samtali við www.kr.is/karfa að leik loknum sögðu þeir að stemmningin og hávaðinn hefðu verið yfirgengileg í Bologna í gærkvöldi.
Tímabilinu er því lokið hjá Jóni Arnóri. Napoli varð ítalskur bikarmeistari og náði í oddaleik í undaúrslitum um meistaratitilinn. Jón Arnór var í byrjunarliði Napoli allt tímabilið og stimplaði sig rækilega inn í einni sterkustu deild Evrópu.
Frétt af www.kr.is/karfa