spot_img
HomeFréttirHelgi á leið til Danmerkur

Helgi á leið til Danmerkur

{mosimage}

(Helgi til hægri og Sævar Haraldsson, Haukamaður, er til varnar) 

Helgi Freyr Margeirsson mun ekki leika með Þór á Akureyri á næstkomandi leiktíð þar sem hann er á leið til Danmerkur í nám. Bakken Bears og nokkur önnur lið í Danmörku hafa boðið Helga að koma á æfingu hjá sér þegar Helgi kemur út.

„Ég er að fara í Mastersnám í viðskiptafræði en það er spursmál hvort maður nái að halda jafnvægi milli skólans og körfunnar þegar út er komið,“ sagði Helgi í samtali við Karfan.is. „Forsvarsmenn Bakken Bears eru tilbúnir til þess að skoða þetta með mér og eru reiðubúnir að koma til móts við mig með því að taka tillit til þess að ég sé í námi,“ sagði Helgi sem er bakvörður og því hentugur í lið Bakken sem er gott úrval hávaxinna leikmanna en þeim er ábótavant í bakvarðastöðunum.

„Námið hjá mér er tvö ár en þetta gætu allt eins orðið þrjú ár hjá mér í Danmörku þar sem kærasta mín er einnig á leiðinni út í nám,“ sagði Helgi sem lék með Þórsurum á síðustu leiktíð en hann er Tindastóls maður að upplagi.

„Það er alltaf gaman að spila með Stólunum og ég hef fulla trú á því að þeim takist að gera það sem þeir þurfa að gera í Iceland Express deildinni,“ sagði Helgi en Tindastóll vann sér inn þátttökurétt í IE-deildinni að nýju eftir að hafa fallið úr úrvalsdeild á þarsíðustu leiktíð. „Þeir hafa fengið einhverja leikmenn til sín en það er sagan endalausa á Sauðárkróki. Ungu og efnilegu leikmennirnir fara oftast í skóla fyrir sunnan. Annars tel ég að Stólarnir eigi fína möguleika ef þeir eru heppnir með útlending,“ sagði Helgi að lokum.

Það verða í það minnsta tvö ár þangað til Helgi leikur aftur hér heima og þá ætti engum að bergða ef hann myndi skella sér í hvítu og fjólubláu treyjuna þegar hann kemur til baka.

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -