spot_img
HomeFréttirKeflavík í viðræðum við danskan leikmann

Keflavík í viðræðum við danskan leikmann

{mosimage}

Keflvíkingar eiga þessa dagana í viðræðum við Thomas Soltau, miðherja danska landsliðsins í körfuknattleik, um að leika með þeim í vetur. Hrannar Hólm, stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Keflavíkur, staðfesti þetta við Morgunblaðið og sagði að gagnkvæmur áhugi væri fyrir hendi en samningar væru þó ekki endanlega í höfn. 

Thomas Soltau er 24 ára gamall, 2,10 metrar á hæð, og skoraði einmitt sigurkörfu Dana gegn Íslendingum á Norðurlandamótinu í Finnlandi, 82:81, fyrr í þessum mánuði. Hann lék síðasta vetur með Grevenbroich og síðan Essen í þýsku 2. deildinni en var áður með Leverkusen í 1. deildinni, efstu deild þar í landi, og þar á undan með Benetton Treviso, hinu kunna ítalska körfuknattleiksliði. „Það má segja að Soltau hafi verið í fullstórum liðum og því ekki alveg náð að slá í gegn en þetta er geysilega öflugur leikmaður sem yrði okkur verulega góður styrkur," sagði Hrannar. 

Allt stefnir í að Keflavík tefli fram einhverju stærsta körfuboltaliði Íslandssögunnar næsta vetur. Sigurður Þorsteinsson, bráðefnilegur 18 ára Ísfirðingur, er kominn í raðir Keflvíkinga en hann er 2,03 metrar á hæð. Calvin Davis, sem kemur frá Bandaríkjunum, er 2,05 metrar og fyrir er í hópnum hinn tveggja metra hái Halldór Örn Halldórsson. 

Frétt af www.mbl.is

Fréttir
- Auglýsing -