{mosimage}
(Níels í leik með KR gegn Fjölni á síðustu leiktíð)
Níels Páll Dungal hefur ávkeðið að ganga til liðs við Þór Akureyri í 1. deildinni á næstu leiktíð. Níels mun leika með Þórsurum eftir áramót en eins og sakir standa er hann við nám í Lögregluskólanum í Reykjavík og hefur hann af þeim sökum ekki tekið þátt í undirbúningstímabilinu hjá KR en Níels lék upp yngriflokkana hjá KR-ingum.
„Ég sá ekki fram á að geta stundað körfubolta fyrir áramót með lögregluskólanum vegna álags. Ég hugsa að álagið sé aðeins minna í 1. deild en í Iceland Express deildinni og Þórsarar höfðu samband við mig. Hrafn er mjög góður þjálfari og er með hörku mannsskap og vitaskuld er stefna sett á að fara beint aftur upp í úrvalsdeild,“ sagði Níels í samtali við Karfan.is
Aðspurður um hvort Níels myndi leika með Þórsurum í IE-deildinni tækist þeim að komast upp sagðist hann ekki vera búinn að hugsa svo langt. „Það yrði óneitanlega skrýtið að leika á móti gömlu félögunum í KR,“ sagði Níels en hann telur að KR muni tefla fram sterku liði í vetur þrátt fyrir brotthvarf hans og fyrrum fyrirliða liðsins, Steinars Kaldal. „Þeir eru með unga stráka sem eru að koma sterkir inn og hafa breiðan hóp til þess að gera atlögu að öllum dollum sem eru í boði á leiktíðinni enda kann Benni (Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR) þetta allt saman,“ sagði Níels að lokum.
Þá er enn óvíst hvað verður um Thelmu Fjalarsdóttur, sambýliskonu Níelsar, en hún átti gott tímabil með KR-konum á síðustu leiktíð þar sem hún var í miðherja- og kraftframherja stöðu. Thelma hefur ekki æft með KR á undirbúningstímabilinu en Níels átti von á því að hún yrði með annan fótinn fyrir norðan þegar Níels væri þangað kominn.
Mynd: [email protected]