10:10
{mosimage}
Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik tekur á móti Írum í Sláturhúsinu í Keflavík á morgun og hefst leikurinn kl. 16:00. Þetta er þriðji leikur íslenska liðsins í B-deild Evrópukeppninnar en þegar hefur íslenska liðið tapað fyrir Hollendingum og Norðmönnum. Fátt annað en sigur dugir fyrir íslenska liðið á morgun en tapleikur gerir næsta víst út um möguleika liðsins á því að komast áfram í keppninni. Leikurinn gegn Írum er jafnframt síðasti leikurinn í þessum fyrri part riðlakeppninnar en síðari hlutinn verður leikinn á næsta ári.
Fyrsti leikur íslenska liðsins var gegn Hollendingum í Hollandi og lauk honum með 5 stiga ósigri Íslands, 66-61. Íslenska liðið átti mikið í þeim leik en það hollenska er talið vera sterkasta liðið í riðlinum. Í Hollandi átti Helena Sverrisdóttir frábæran leik með 25 stig og 10 fráköst. Slakur fjórði leikhluti íslenska liðsins varð því að falli í Hollandi en heimakonur unnu þann leikhluta 17-8.
Annar leikur liðsins var gegn Norðmönnum og var það jafnframt fyrsti heimaleikur íslenska liðsins í keppninni. Í stuttu máli sagt olli íslenska liðið gríðarlega miklum vonbrigðum. Lykilleikmenn á borð við Helenu Sverrisdóttur og Hildi Sigurðardóttur voru sem áhorfendur í leiknum og allt frumkvæði íslenska liðsins kom af hálfu Birnu Valgarðsdóttur, hefði hennar hefði ekki notið við hefðu tölurnar örugglega verið hærri en 47-69. Norðmenn kafsigldu íslenska liðið í fjórða leikhluta og Ísland átti engin svör við gestunum, hvorki í vörn né sókn og var þjálfarinn Guðjón Skúlason drullufúll í leikslok eins og hann sagði sjálfur.
Írar hafa rétt eins og íslenska liðið tapað báðum leikjum sínum í keppninni og því verður þetta hörkuslagur tveggja liða á morgun sem bæði þurfa nauðsynlega á sigri að halda til þess að vera á lífi í keppninni. Lykilleikmenn á borð við Helenu og Hildi þurfa að taka meira af skarið og vera ekki smeykar að leiða íslenska liðið til síns fyrsta sigurs. Það er að duga eða drepast á morgun hjá íslenska kvennalandsliðinu.