spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Mikilvægur sigur í Sláturhúsinu

Umfjöllun: Mikilvægur sigur í Sláturhúsinu

20:28 

{mosimage}

 

 

(Birna Valgarðsdóttir gerir hér 2 af 12 stigum sínum í dag)

 

Helena Sverrisdóttir var ansi nálægt því að landa þrennu í dag þegar íslenska kvennalandsliðið hafði góðan 68-56 sigur gegn Írum í B-deild Evrópukeppninnar. Helena gerði 20 stig, tók 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Sigurinn var sá fyrsti hjá íslenska liðinu og var þýðingarmikill því ósigur hefði að öllum líkindum gert út um A-deildar vonir liðsins.

 

 

Íslenska liðið hóf leikinn vel og leiddi 21-12 að loknum fyrsta leikhluta. Írar minnkuðu muninn í 21-16 strax í upphafi annars leikhluta og var nokkuð um tapaða bolta hjá íslenska liðinu í upphafi leikhlutans. Þegar Írar urðu of nærgöngulir þá setti Helena Sverrisdóttir niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 24-16. Fljótlega var staðan orðin 31-18 fyrir Íslandi eftir þriggja stiga körfu frá Kristrúnu Sigurjónsdóttur. Liðin héldu svo til hálfleiks í stöðunni 35-22 Íslandi í vil eftir góðan lokakafla Íslands í fyrri hálfleik.

 

Alls tapaði íslenska liðið 18 boltum í fyrri hálfleik og urðu þeir 28 talsins í öllum leiknum en þeir voru aðeins 10 í síðari hálfleik svo stelpurnar hafa lagt vel við hlustir þegar Guðjón landsliðsþjálfari hélt hálfleiksræðu sína.

 

 

{mosimage}

 

Írar gerðu fyrstu sex stigin í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í 35-28 áður en Guðjón tók leikhlé. Strax eftir leikhléið mætti íslenska liðið til síðari hálfleiks og gerði níu stig í röð án þess að gestirnir næðu að svara og staðan því 43-28 þegar um fimm mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta en það var jafnframt mesti munurinn sem Ísland hafði á Íra í leiknum. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 55-39 fyrir Ísland.

 

Í fjórða leikhluta söxuðu Írar hægt og bítandi á forskot íslenska liðsins og náðu mest að minnka muninn í fimm stig eða 61-56 en þá settu íslensku stelpurnar í lás og kláruðu leikinn 68-56 og fyrsti sigurinn þar með í höfn. Íslenska liðið notaðist töluvert við svæðisvörn í leiknum í dag sem setti Íra oft í erfiða aðstöðu en t.d. gegn Norðmönnum var íslenska liðið aðllega í maður á mann vörn og það gaf ekki vel.

 

Hollendingar höfðu sigur á Noregi í Osló í dag, 68-76, og þar með er Holland í efsta sæti riðilsins, Norðmenn í öðru sæti, Ísland í þriðja og Írland í fjórða sæti. Fyrri hluta riðlakeppninnar er því lokið og á næsta ári þarf íslenska liðið að leika tvo útileiki og einn heimaleik. Útleikirnir eru gegn Norðmönnum og Írum og svo er leikið gegn Hollendingum heima.

 

Stig íslenska liðsins gegn Írum:

Helena Sverrisdóttir, 20 stig

Birna Valgarðsdóttir, 12 stig

Signý Hermannsdóttir, 12 stig

Kristrún Sigurjónsdóttir, 9 stig

Hildur Sigurðardóttir, 6 stig

Helga Jónasdóttir, 4 stig

Pálína Gunnlaugsdóttir, 3 stig

María Ben Erlingsdóttir, 2 stig

Bryndís Guðmundsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir léku einnig í leiknum en náðu ekki að skora.

 

Byrjunarlið Íslands gegn Írlandi:

Signý Hermannsdóttir

Bryndís Guðmundsdóttir

Hildur Sigurðardóttir

Birna Valgarðsdóttir

Helena Sverrisdóttir

 

Gangur leiksins:

1. Leikhluti: 13-9, 17-10, 21-12

2. Leikhluti: 24-16, 31-18, 35-22

3. Leikhluti: 37-28, 43-30, 53-39

4. Leikhluti: 57-45, 61-56, 68-56

 

[email protected]

 

 

{mosimage}

 

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -