09:52
{mosimage}
Tveir leikir fóru fram í 8-liða úrslitum Powerade bikarkeppninnar í gærkvöldi. Keflavík rótburstaði KR 143-23 þar sem Margrét Kara Sturludóttir gerði 23 stig í Keflavíkurliðinu og Bryndís Guðmundsdóttir gerði 20. Þá mættust ÍS og Breiðablik þar sem Stúdínur höfðu yfirburðasigur, 62-37, og gerði Hafdís Helgadóttir 20 stig og tók 14 fráköst hjá Stúdínum.
Sláturhúsið stóð svo sannarlega undir nafni í gærkvöldi en munurinn á Keflavík og KR var gífurlegur. Keflavík komst í 4-0 en KR minnkaði muninn í 4-3 en eftir það hristu Keflvíkingar gestina af sér og kláruðu leikinn í 1. leikhluta. Staðan að leikhlutanum loknum var 42-11 þar sem Bryndís Guðmundsdóttir gerði 17 stig í leikhlutanum fyrir Keflavík.
Í íþróttahúsi Kennaraháskólans höfðu Stúdínur afgerandi forystu í hálfleik, 31-15, og var róðurinn í þeim síðari auðveldur og því tryggðu Keflavík og ÍS sér sæti í undanúrslitum Powerade bikarsins sem fram fara föstudaginn 6. október.
{mosimage}
Skallagrímur gaf sinn leik gegn Haukum og því eru Haukar einnig komnir í undanúrslit en einn leikur er eftir í 8-liða úrslitum og er það viðureign Grindavíkur og nýliðanna í Iceland Express deild kvenna, Hamars/Selfoss. Leikur þessara liða fer fram í kvöld í Grindavík og hefst hann kl. 19:15.