00:10
{mosimage}
Jermaine Williams gerði 24 stig og tók 14 fráköst fyrir Keflvíkinga er þeir rétt mörðu Skallagrím 88-81 í undanúrslitum Powerade bikarkeppninnar í Laugardalshöll. Skallagrímsmenn leiddu í hálfleik 45-40 en Keflvíkingar kláru leikinn vel og höfðu að lokum 7 stiga sigur.
Skallagrímur komst snemma í 8-2 með þriggja stiga körfu frá Jovan Zdravevski en hann var sjóðandi heitur í kvöld og setti 29 stig yfir Keflvíkinga. Skömmu síðar setti Jovan annan þrist fyrir Skallagrím og staðan orðin 13-6. Keflvíkingar tóku þá við sér og breyttu stöðunni fljótt í 20-19 og lauk leikhlutanum í stöðunni 28-27 fyrir Keflavík.
Léttleikinn og lipurðin úr fyrsta leikhluta var ekki til staðar hjá Skallagrím í upphafi annars leikhluta og því komust Keflvíkingar í 37-30 þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Stuttu síðar fékk Darrell Flake sína þriðju villu og Valur Ingimundarson, þjálfari Skallagríms, kallaði hann á tréverkið. Fjarvera Flake virtist hafa góð áhrif á Skallagrím og með þá Svein Blöndal og Jovan í broddi fylkingar tókst Skallagrím að jafna leikinn og komast yfir 45-40 þegar flautað var til hálfleiks.
{mosimage}
Dimitar Karadzovski opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og kom Skallagrím í 48-40. Þriðji leikhluti var eign Borgnesinga og náðu þeir allt að 12 stiga forskoti á Keflavík en áður en leikhlutinn var úti setti Arnar Freyr Jónsson niður tvö víti og breytti stöðunni í 60-66 fyrir loka leikhlutann.
Fyrirliðinn og reynsluboltinn Gunnar Einarsson sýndi sínum mönnum vettlingatökin er hann jafnaði leikinn í 66-66 en Darrell Flake jók muninn enn á ný í næstu sókn fyrir Skallagrím. Eftir jafnan lokaleikhluta er staðan 79-76 fyrir Keflavík og um tvær mínútur eru til leiksloka þegar brotið er á stórskyttunni Magnúsi Gunnarssyni í þriggja stiga skoti. Magnús setti niður öll vítin og kom Keflavík í 82-76 og þar með var björninn unninn. Borgnesingar náðu ekki að brúa þetta bil og Keflvíkingar leika því til úrslita gegn Njarðvíkingum á laugardag.
{mosimage}