13:02
{mosimage}
Landsliðsskotbakvörðurinn Magnús Gunnarsson vílaði það ekki fyrir sér að salla niður þremur vítum í röð og þannig tryggja nokkurn veginn sigur Keflavíkur gegn Skallagrím í undanúrslitum Powerade bikarkeppninnar í gær. Keflvíkingar höfðu 7 stiga sigur á Borgensingum 88-81 en Magnús segir sína menn langt frá sínu besta.
„Sem betur fer hittum við ágætlega úr vítunum okkar gegn Skallagrím og spiluðum hörkuvörn undir lokin, það gerði gæfumuninn hjá okkur,“ sagði Magnús í samtali við Karfan.is eftir leik.
„Jovan spilaði mjög vel hjá Skallagrím og það sést alveg að hann getur skorað fram hjá hvaða varnarmanni sem er í deildinni. Í raun var hvorugt liðið að spila vel og við erum langt frá okkar besta eins og staðan er í dag. Við verðum bara betri á laugardag,“ sagði Magnús rétt áður en leikur Njarðvíkur og KR hófst í gærkvöldi.
Magnús og Keflvíkingar leika því sína aðra nágrannarimmu á laugardag þegar þeir mæta Njarðvíkingum í úrslitaleik Powerade bikarsins í Laugardalshöll kl. 16:00. Liðin mættust fyrst í Húsasmiðjumótinu í Njarðvík þar sem Keflavíkingar höfðu sigur úr býtum 92-86.