16:17
{mosimage}
(Rob Hodgson)
Keppni í Iceland Express deild karla hefst á fimmtudag eða þann 19. október næstkomandi. Liðin í deildinni eru töluvert breytt frá síðustu leiktíð, mismikið hvert en flest lið hafa fengið til sín nýja erlenda leikmenn og þá hefur orðið nokkur uppstokkun á íslenskum leikmönnum.
Karfan.is mun fjalla um hvert lið í deildinni og hefjum við leik á Þór Þorlákshöfn en Þórsarar unnu sér inn þátttökurétt í Iceland Express deildinni fyrir þessa leiktíð með því að hafna í 2. sæti 1. deildar.
Pennar hjá Karfan.is settu saman spá fyrir tímabilið með stigagjöf og munum við setja inn sæti liðanna ásamt umfjöllun svo það verður kannski smá spenna þegar líður á vikuna um hvaða lið Karfan.is spáir Íslandsmeistaratitlinum.
12. sæti: Þór Þorlákshöfn
Þórsarar leika nú í annað sinn í efstu deild á Íslandi, þeirra frumraun var árið 2004 en þá féllu þeir úr deildinni ásamt Breiðablik. Robert Hodgson lék þá með liðinu en hann er ein aðalsprautan í körfuboltanum í Þorlákshöfn og hefur ásamt því að leika með Þór verið þjálfari liðsins og hjá yngri flokkum. Til gamans má geta að Þór Þorlákshöfn var fyrsta félagið á Íslandi til þess að eignast skotvél sem flest öll önnur félög keppast nú við að eignast. Skotvélin hefur gefið góða raun og voru t.d. Njarðvíkingar næstir í röðinni á eftir Þórsurum að eignast slíka vél.
Þórsarar hafa bætt töluvert við leikmannahóp sinn frá 1. deildinni, Damon Bailey og Buddy Johnston hafa gengið í raðir liðsins og mun Damon líkast til sinna stærsta hlutverkinu í liðinu. Grétar Erlendsson er farinn erlendis til náms og er það skarð fyrir skildi því hann var aðalmaður Þórsara á blokkinni í 1. deild en ef hann hefði verið með liðinu í vetur má deila um hvernig honum hefði gengið á móti miðherjum á borð við Friðrik Stefánsson og Fannar Ólafsson.
Þórsarar mun líkast til leika án Sveinbjarnar Skúlasonar sem meiddist í sumar en hann var bakvörður í byrjunarliði Þórs í 1. deildinni. Þá hefur Suðurnesjamaðurinn Ágúst DearBorn gengið í raðir Þórs sem og reynsluboltinn Björn Hjörleifsson sem kemur frá Drangi úr Vík í Mýrdal en Drangsmenn ákváðu að tefla ekki fram liði í 1. deildinni í vetur. Björn er flestum hnútum kunnugur í Þorlákshöfn en hann er fyrsti þjálfari meistaraflokks karla hjá Þórsurum ef minni svíkur ekki greinarhöfund.
Félagarnir Robert Hodgson og Jason Harden þurfa að standa sig vel í vetur, helst spila yfir getu, ef Þór á að halda sæti sínu í deildinni. Báðir eru þeir eljusamir leikmenn og skynsamir. Hodgson er hausinn á bak við Þórs liðið, í 1. deildinni var það sannkölluð rússíbanaferð að fylgjast með Þórsurum hoppa úr maður á mann í 3-2 eða 2-3 svæði og svo byrjuðu þeir skyndilega með gildrur á miðjunni og breyttu svo kannski í pressuvörn á fullan völl. Öll þessi afbrigði í einum leikhluta og þeir gerðu það bara ágætlega og virtust líða ágætlega með það að skipta hratt um varnir og reyna þannig að rugla andstæðingana.
{mosimage}
Leikmannahópur Þórs:
Buddy Johnston
Hjörtur Ragnarsson
Ágúst Dearborn
Sveinbjörn Skúlason
Óskar Þórðarson
Björn Hjörleifsson
Svavar Pálmarsson
Snorri Þorvaldsson
Davíð Gulaugsson
Robert Hodgson
Damon Bailey
Haraldur Einarsson
Birgir Pétursson
Jason Hardein
Kristinn Ólafsson
Erfiður vetur er framundan hjá Þór Þorlákshöfn, íslensku leikmennirnir í liðinu hafa litla sem enga reynslu af úrvalsdeildinni en Þór hefur engu að síður verið að standa sig ágætlega í þeim leikjum sem þeir hafa spilað á undirbúningstímabilinu. Niðurstaðan er engu að síður sú, samkvæmt spánni, að Þór Þorlákshöfn mun hafna í 12. sæti og þar með missa sæti sitt í deildinni.