20:37
{mosimage}
Undirbúningstímabilið hefur ekki verið sem glæsilegast hjá Fjölnismönnum. Liðið hefur misst nokkra góða leikmenn og ber þar helst að nefna stjörnubakvörðinn Hörð Axel Vilhjálmsson sem hélt til Spánar í atvinnumennsku í sumar. Karfan.is spáir Fjölnismönnum 10. sæti í deildinni sem þýðir að liðið heldur sínu sæti í deildinn en kemst ekki í úrslitakeppnina.
Af blóðtöku Fjölnismanna er það að segja að Benedikt Guðmundsson hætti þjálfun liðsins og tók við KR þar sem Herbert Arnarsson opinberaði að hann myndi ekki vera áfram með KR-inga. Benedikt er því kominn heim en hann hefur um árabil þjálfað yngri flokka hjá KR við góðan orðstír. Hann var m.a. þjálfari 1982 árgangsins sem gat af sér ekki ómerkari leikmenn en Jón Arnór Stefánsson og Helga Magnússon.
Bakvörðurinn Lárus Jónsson hefur söðlað um og farið aftur í Hamar/Selfoss eftir ágætan tíma hjá Fjölni og Guðni Valentínusarson er kominn í raðir Snæfellinga. Fjölnismenn hafa þó bætt við sig og fengu t.d. Ragnar Gylfason frá FSu en Ragnar átti góða leiktíð með spútnikliði FSu í 1. deildinni á síðustu leiktíð.
Níels Dungal stórsvigaði á milli stórra ákvarðanna í sumar, fyrst ætlaði hann að leika með Þór Akureyri í 1. deildinni eftir áramót en flestum körfuknattleiksunnendum til undrunar ákvað hann skyndilega að ganga í raðir Fjölnismanna. Sannarlega hvalreki fyrir Fjölnismenn en Níels er sterkur og áræðinn bakvörður sem kemur með nokkra reynslu inn í Fjölnisliðið.
{mosimage}
Vart þarf að kynna Keith Vassell til leiks, Keith gerði garðinn frægan hjá KR og hefur nú tekið við Fjöni sem þjálfari og leikmaður. Fáir erlendir leikmenn hafa verið jafn lengi við íslensku deildina og Keith en það er spurning hvað hann hefur að færa Fjölnismönnum inni á vellinum.
Aðrir erlendir leikmenn í röðum Fjölnis er hinn góðkunni Nemanja Sovic, einn besti Evrópumaðurinn sem leikið hefur á Íslandi, og svo Patrick Oliver. Patrick gerði 27 stig og tók 14 fráköst gegn Hamri/Selfoss í Powerade bikarnum þar sem Fjölnir varð að lúta í lægra haldi.
Leikmannalisti Fjölnis:
Arnar F. Lárusson
Árni Ragnarsson
Árni Þ. Jónsson
Emil Þór Jóhannsson
Haukur Helgi Pálsson
Hjalti Þ. Vilhjálmsson
Keith C. Vassell
Magnús Pálsson
Marvin Valdimarsson
Nemanja Sovic
Níels P. Dungal
Patrick Oliver
Ragnar Gylfason
Tryggvi Pálsson
Valur Sigurðsson
Þorsteinn Sverrisson
Eins og fyrr greinir þá spáir Karfan.is Fjölnismönnum í 10. sæti deildarinnar en liðið er meira en vel fært um að kollvarpa þeirri spá, sér í lagi ef leikmenn á borð við Hjalta, Marvin og Níels stíga rækilega upp og láta að sér kveða.