15:46
{mosimage}
Viðureign Grindavíkur og Hamars í gær var opnunarleikur Icleand Express deildar kvenna en öll fyrsta umferðin fór fram í Röstinni í Grindavík. Óhætt er að segja að nýliðar Hamars hafi komið verulega á óvart en þær létu Grindavíkurkonur hafa all rækilega fyrir sigrinum. Lokatölur leiksins voru 86-74 Grindavík í vil.
Grindvíkingar voru alltaf skrefinu á undan í leiknum og var staðan 20-18 fyrir Grindavík að loknum 1. leikhluta. Sterkur endasprettur Hamars í öðrum leikhluta varð til þess að liðin gengu til leikhlés í stöðunni 36-33.
Þær Dúfa Ásbjörnsdóttir og Atari Parker léku vel í liði Hamars í gær. Hamar náði að jafna í stöðunni 38-38 og komast yfir með þriggja stiga körfu frá Parker, 38-41. Þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til loka leikhlutans fékk Atari Parker sína fjórðu villu og varð að hafa hægt um sig. Í garð gekk þá góður kafli hjá Grindavík sem náði að breyta stöðunni í 64-54 fyrir loka leikhlutann.
Í fjórða leikhluta kviknaði í Dúfu Ásbjörnsdóttur en hún reyndi hvað hún gat að brúa bilið milli Hamars og Grindavíkur með hverri þriggja stiga körfunni á fætur annarri. Grindavíkurkonur héldu þó fengnum hlut og höfðu að lokum sigur 86-74. Tamara Bowie gerði 35 stig fyrir Grindavík og tók 20 fráköst. Þess má geta að síðast þegar Hamar og Grindavík mættust, í Powerade bikarnum, hafði Grindavík stórsigur 108-38 og því hafa nýliðarnir aldeilis tekið sig á síðan þá.
Hjá Hamri var Atari Parker með 25 stig og 21 frákast en Dúfa Ásbjörnsdóttir var með 24 stig og hitti úr 6 af 10 þriggja stiga tilraunum sínum. Lilja Sigmarsdóttir átti fínan dag í liði Grindavíkur með 9 stig og 16 fráköst.
{mosimage}