17:33
Grindavíkurkonum var komið á óvart í gær þegar Hamar gerði þeim skráveifum í Icleand Express deild kvenna. Grindavík hafði þó sigur en fyrir leikinn í gær hafði Grindavík lagt Hamar að velli með 70 stiga mun en í gær voru það aðeins 12 stig sem skildu að liðin. Alma Rut Garðarsdóttir gerði 9 stig fyrir Grindavík í gær og sagði að um vanmat hjá sínu liði hefði verið að ræða.
,,Ég held að vanmat hafi verið málið og að við höfum ætlað okkur að vinna þær með 40 stiga mun og það hafi verið hugsunarhátturinn. Mér finnst samt munurinn vera meiri á liðunum en úrslitin gefa til kynna,” sagði Alma. Fyrir höndum er stórleikur hjá Grindavík á miðvikudag gegn grönnum sínum í Keflavík en leikurinn fer fram í Röstinni í Grindavík. ,,Við verðum að taka okkur á og laga vörnina fyrir Keflavíkurleikinn. Við verðum einnig að mæta betur undirbúnar gegn Keflavík en við gerðum gegn Hamri,” sagði Alma að lokum.