09:44
{mosimage}
Njarðvíkingar báru sigurorð af Borgnesingum í frábærum körfuboltaleik sem spilaður var í Borgarnesi í gærkvöld. Leikurinn var jafn framan af og ljóst frá byrjun að það stefndi í hörkuleik. Liðin skiptust á um að hafa forystu fyrstu mínúturnar og munaði þá Njarðvíkingum helst um Egil Jónasson sem setti fyrstu átta stig þeirra í gær.
Borgnesingar settu hinsvegar í skotgírinn þegar leið á fyrri hálfleik og áttu Njarðvíkingar fá svör við frábærum sóknarleik Skallagrímsmanna, sem hreinelga virtust ekki geta klúðrað úr skoti. Þeir Sveinn Blöndal, Axel Kárason og Darrel Flake sýndu frábæra baráttu og voru potturinn og pannan í sóknarleik liðsins. Þetta þýddi þó ekki að aðrir leikmenn liðsins væru ekki að standa sig, það voru hreinlega allir gulklæddir menn á vellinum heitir í fyrrihálfleik. Pétur Már Sigurðsson sýndi skemmtileg tilþrif þegar hann varði skot Jeb Ivey við mikinn fögnuð um 300 Borgnesinga. Skallagrímur enduði 2. leikhluta hinsvegegar ekki nógu vel þegar hinn magnaði Jeb Ivey setti niður vonlaust skot úr hörmulegu færi og gaf þar með tóninn fyrir dramatíska endurkomu Njarðvíkinga í seinni hálfleik.
Það var bara eitt lið inni á vellinum í 3. leikhluta og það var Njarðvík. Þrátt fyrir ágætis byrjun Borgnesinga í seinni hálfleik, sem fól m.a. í sér glæsileg varnartilþrif Darrels Flake á Friðriki Stefánssyni, og 4 stig frá Jovani Zdravevski, fór að síga á ógæfuhliðina. Eftir að hafa verið 17 stigum undir í byrjun 3. leikhluta settu Njarðvíkingar í gang og minnkuðu muninn jafnt og þétt með mikilvægum körfum frá Jeb Ivey og Brenton Birmingham. Ekki má gleyma þætti Jóhanns Ólafssonar sem sýndi að hann er kominn aftur í fremstu röð eftir að hafa glímt við erfið meiðsli og spilaði hann feiknarvel fyrir Njarðvíkinga í 3. leikhluta. Jeb Ivey endaði síðan leikhlutan á sama hátt og áður, með frábærri flautukörfu sem jafnaði metin, 68-68.
Það var ljóst að í 4. leikhluta var á ramman reip að draga fyrir Borgnesinga þar sem Njarðvíkingar höfðu náð að vinna upp forskot þeirra og voru með yfirhöndina. Lokakafli leiksins var æsispennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokasekúndunum, en þegar um 24 sek voru eftir stal Hafþór Ingi Gunnarsson boltanum af Guðmundi Jónssyni og brunaði upp völlin, fór í sniðskot, en hitti ekki og fékk 2 vítaskot. Staðan var þá 84-85 Njarðvíkingum í vil. Hafþór misnotaði hinsvegar bæði vítaskotin og Njarðvíkingar fóru í skókn, Jovan Zdravevski braut á Friðriki Stefánssyni sem sýndi fádæma öryggi á vítalínunni og kom Njarðvíkingum 3 stigum yfir. Það kom svo í hlut Dimitars Karadzovskis að taka lokaskotið en það geigaði og Njarðvíkingar unnu mikinn baráttusigur í Borgarnesi í gær.
Bestu menn Njarðvíkur í gær voru þeir Jeb Ivey og Egill Jónasson, en Egill setti 18 stig sem er persónulegt met. Kappinn hafði spælst í strípur í hárið fyrir leik og greinilegt er að þær gerðu gæfumuninn. Ekki má gleyma þeirri frábæru vörn sem Brenton Birmingham spilaði á Jovan Zdravevski í seinni hálfleik. Erfitt er að taka einhvern einn Borgnesing fram yfir annan í kvöld. Allir leikmenn liðsins voru að spila fantavel, en gegn liði eins og Njarðvík verður að halda einbeitingu allan tímann.
Texti: Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Myndir: Svanur Steinarsson
{mosimage}