07:00
{mosimage}
Karfan.is hefur fengið hóp körfuboltasérfræðinga til að spá fyrir um lokastöðuna í 1. deild karla. Niðurstaða þessarar spár verður kynnt nú fram að upphafi 1. deildar sem er föstudaginn 3. nóvember þegar Stjarnan tekur á móti Þór Ak og Breiðablik á móti Ármanni Þrótti.
Til að auka spennuna verður byrjað á að kynna liðið sem spáð er 8. sæti en einungis 8 lið eru í deildinni þetta árið og leikin tvöföld umferð, 14 leikir á lið. Lið Drangs og ÍG höfðu keppnisrétt í 1. deild en nýttu sér það ekki, þeim tveimur liðum sem féllu úr deildinni í fyrra, ÍS og Reynis S, var boðin þátttaka en treystu sér ekki í það.
En sérfræðingar Karfan.is spá því að í áttunda sæti verði nýliðar Ármanns/Þrótts. Ármann/Þróttur sigraði í 2. deild á síðasta ári eftir eitt ár í þeirri deild. Ármann var eitt af þeim liðum sem tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1952 en var svo ekki aftur með fyrr en 1960 og allar götur til 1981 þegar deildin var lögð niður og leikmenn Ármanns gengu í Fram. Haustið 1999 mættu þeir svo aftur til leiks og nú sameinaðir Þrótti og sigruðu 2. deildina í fyrstu tilraun og léku í 1. deild þar til síðasta tímabil. Ármann hefur þrisvar orðið bikarmeistari, 1965, 1975 og 1976 og varð einnig Íslandsmeistari 1976, liðið tók þátt í Evrópukeppni bikarhafa veturinn 1975-76 og mætti finnska liðinu Playboys. Þetta tímabil lék Jimmy Rodgers með Ármanni en hann var einn af fyrstu erlendu leikmönnunum sem komu til Íslands.
Ármann/Þróttur hefur fengið nokkra leikmenn til sín fyrir veturinn en þ.á.m. eru Jóhann Líndal frá Breiðablik, Sæmundur Oddsson frá ÍS, Bjarki Alexandersson frá ÍS, Geir Þorvaldsson frá Val, Steinar Pál Magnússon frá ÍS og Matthías Ásgeirsson frá Val. Eini leikmaðurinn sem farið hefur frá Ármanni er Sveinn Blöndal
Einar Hugi Bjarnason er spilandi þjálfari Ármanns/Þróttar í vetur og karfan.is lagði nokkrar spurningar fyrir hann sem hann svaraði samviskusamlega.
Hvaða leikmaður/menn í þínu liði eiga eftir að koma á óvart í vetur?
Sæmundur Jón Oddsson og Matthías Ásgeirsson.
Hvaða íslensku leikmönnum er vert að fylgjast með í þínu liði?
Það er vert að fylgjast með öllum íslensku leikmönnunum í mínu liði, en vil þó nefna sérstaklega Steinar Pál Magnússon og fyrirliðann Halldór Óla Úlriksson.
Er liðið með erlendan leikmann?
Nei.
Hefur undirbúningur liðsins fyrir tímabilið verið ásættanlegur?
Já ég tel svo vera.
Hvað er einkennandi fyrir leikstíl þíns liðs?
Agaður sóknarleikur á hálfum velli, og vonandi sterkur varnarleikur.
Hvert er markmiðið fyrir tímabilið?
Að koma liðinu í úrslitakeppni.
Hvaða lið á eftir að koma á óvart í vetur?
Ármann/Þróttur.
Hvaða lið vinnur deildina?
Þór Akureyri.
Hvernig sérð þú 1. deildina fyrir þér í framtíðinni?
Fullskipaða!
[email protected]
Kynning á 1. deild karla – 8. sæti Ármann/Þróttur