23:38
{mosimage}
Um helgina fer fram í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ fjölliðamót í 10. flokki karla C riðill. Þetta er í fyrsta skipti sem fjölliðamót fer fram í Mosfellsbæ en fyrir um 10 árum tók Afturelding þátt í Íslandsmótum en þá fóru öll fjölliðamót fram í Klébergsskóla á Kjalarnesi. Það er mikill hugur í Mosfellingum að standa sig vel en 9. flokkur þeirra tók þátt í sínu fyrsta fjölliðamóti í Smáranum í lok október.
Friðrik Garðar Sigurðsson þjálfar alla flokka Aftureldingar en körfuknattleiksdeildin var endurvakin fyrir um 3 árum og býður upp á æfingar fyrir drengi frá 6.-10. bekk og hefur fjölgað jafnt og þétt í hópnum.
Það er ánægjulegt að sjá ný félög taka körfuboltann upp á sína arma og senda lið til leiks í Íslandsmóti, ekki síst í svo stóru bæjarfélagi sem Mosfellsbær er. Karfan.is náði tali á þjálfara drengjanna Friðriki Garðari Sigurðssyni og laggði fyrir hann nokkrar spurningar.
Hvernig leggst það í Mosfellinga að halda sitt fyrsta fjölliðamót?
Þetta er spennandi verkefni sem deildin ákvað að taka að sér og bíðum við spennt eftir að sjá hvernig tekst til.
Hvernig gengur undirbúningur fyrir mótið?
Segja má að við rennum nokkuð blint í sjóinn en mannskapurinn er ákveðinn í því að halda gott mót.
Hvenær var deildin endurvakin innan Aftureldingar?
Deildin var endurvakin haustið 2004. Í byrjun gekk erfiðlega að fá stráka hér í Mosfellsbæ til að að æfa körfuknattleik og skýrist það líklega vegna lítillar körfuboltahefðar hér í bæ. Á tíma var var mæting upp á 2-3 drengi og ljóst að mikið verk var fyrir höndum ef halda ætti deildinni á lífi. En sem betur fer þá gáfumst við ekki upp og smám saman fór að myndast góður kjarni sem lagði grunninn að í dag er deildin vonandi komin til að vera. Í dag eru u.þ.b. 20 drengir sem æfa 3svar í viku á aldrinum 13-16 ára.
Hvað kemur til að liðið skráir ákveður að taka þátt í Íslandsmóti núna?
Stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar ákvað nú á haustdögum að tímabært væri að skrá Aftureldingu í Íslandsmót og áveðið var að skrá tvo flokka, 9. og 10. Sú staðreynd að við erum loksins farnir að spila ,,alvöru” leiki hefur virkað sem vítamínsprauta á allt starf deildarinnar. Drengirnir mæta vel og eru staðráðnir að standa sig.
Hvernig lítur framtíð deildarinnar út?
Það má með sanni segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan ég var með nokkra drengi á æfingu að kenna þeim grunnreglur körfuboltans. Hvort körfuboltinn sé kominn til að vera hér í Mosfellsbæ verður tíminn að leiða í ljós en ljóst má vera að með öflugu og góðu starfi næstu ár má festa rætur körfuboltans enn betur.
Hver er Friðrik Garðar Sigurðsson og hvernig kemur hann inn í körfubolta?
Ég er Íþróttakennari/grunnskólakennari. Er giftur með fjögur börn. Minn bakgrunnur í Körfuknattleik er ekki mikill. Ég æfði sem ungur drengur í nokkur ár hjá Haukum. Það skýrist einfaldlega af því að allur minn tími var helgaður fótbolta.. Sem sagt menntun mín skýrir veru mína að miklu leyti en ekki blómlegur ferill í íþróttinni!
Mynd: Ólafur H. Einarsson