Ungstirni KR Almar Orri Atlason mun halda vestur um haf fyrir komandi tímabil og leika með Sunrise Christian Academy menntaskólanum í Bandaríkjunum.
Eftir að hafa slegið í gegn með U18 lið Íslands á Evrópumótinu nú í sumar fékk Almar mikið lof einhverra helstu greinanda ungra leikmanna í heiminum í dag, þar sem að Jonathan Givony á ESPN lét frá sér að frammistaða hans á mótinu væri ein sú besta sem hann hafi séð í sumar.
Samkvæmt fréttatilkynningu KR vakti umfjöllunin athygli margra mennta- og háskóla vestan hafs og hafi hann í framhaldi valið að ganga til liðs við Sunrise Christian, sem er einn allra besti körfubolta menntaskóli Bandaríkjanna.
“Ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri og allan þann stuðning sem ég hef fengið. Ég var mjög spenntur fyrir því að taka næsta tímabil með KR og spila áfram fyrir Helga. En þegar tækifærið að spila með Sunrise kom upp var það einfaldlega of gott til þess að neita. Ég hlakka til að spila með og á móti nokkrum af bestu strákum í heimi á mínum aldri og halda áfram að þroska minn leik” Segir Almar í fréttatilkynningu félagsins.
“Það er vissulega slæmt fyrir okkur að missa Almar úr hópnum fyrir komandi tímabil en eftir þessa frammistöðu með U18 varð fljótt nokkuð ljóst að áhuginn frá erlendum skólum var mjög mikill. Að sama skapi erum við afskaplega ánægðir fyrir hans hönd og óskum honum alls hins besta. Hann er búinn að vera mjög duglegur að æfa aukalega undanfarin ár og er einfaldlega að uppskera eftir því. Það er alltaf gleðiefni þegar ungir og efnilegir KR-ingar komast að erlendis í skóla eða atvinnumennsku. Það segir okkur að við séum að gera eitthvað rétt í yngri flokka starfinu okkar” bætir Helgi Már Magnússon þjálfari meistaraflokks KR við.
Almar hefur leikið með KR upp í gegnum alla yngri flokkana. Hann gekk til liðs við Stella Azurra í Róm á Ítalíu, veturinn 2019-2020. Almar lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir KR tímabilið 2020-2021, aðeins 16 ára gamall. Á síðasta tímabili spilaði Almar stærra hlutverk, kom við sögu í 20 af 22 leikjum í deild og skilaði 3,7 stigum og 1,6 frákasti að meðaltali í leik.