13:02
{mosimage}
Haukar leika síðasta leik sinn í evrópukeppninni í kvöld þegar ítalska liðið Parma kemur í heimsókn á Ásvelli. Leikurinn hefst klukkan 19.15. Þetta verður sjötti evrópuleikur Haukaliðsins á þessu tímabil og sá tólfti á rúmu ári. Fyrirliði Haukaliðsins, Helena Sverrisdóttir, er sú eina sem hefur spilað alla leikina en hana vantar líka aðeins fimm stig til þess að skora sitt 200. evrópustig fyrir Hauka. Haukar náðu mjög góðum úrslitum í fyrri leiknum út á Ítalíu en þurfa á góðum leik til þess að eiga við hið sterka lið Parma sem er að berjast um sigurinn í riðlinum við franska liðið Lattes Montpellier.
Ítalska liðið Lavezzini Parma er mjög sterkt og það teflir meðal annars fram fjórum landsliðskonum frá fjórum mismunandi þjóðum. Með liðinu spilar einnig fyrirliði 18 ára landsliðs Ítala sem vann b-deildina síðasta sumar. Þá má ekki gleyma því að hjá liðinu eru bandaríski leikmaðurinn Megan Mahoney og ástralski reynsluboltinn Monica Bello. Ítalska liðið teflir aðeins fram einum bandarískum leikmanni og er Ástralinn Jennifer Ellen Screen hinn "kaninn" í liðinu. Monica Bello er hinsvegar með tvöfalt ríkisfang eftir áralanga dvöl á Ítalíu. Screen var Haukaliðinu sérstaklega erfið í fyrri leiknum og skoraði þá 30 stig. Allar landsliðskonurnar eiga það sameiginlegt að vera í stórum hlutverkum hjá sínum þjóðum, ein varð heimsmeistari í haust og hinar þrjár spila í úrslitum Evrópumótsins á næsta ári.
Landsliðskonurnar í Parmaliðnu eru Jennifer Ellen Screen sem varð heimsmeistari með Ástralíu í september, Emilija Podrug sem hjálpaði króatíska landsliðinu að komast í úrslitakeppni EM næsta sumar, Laurence Van Malderen sem gerði það sama fyrir belgíska landsliðið og þá verður hin 201 sm Dubravka Dacic í fararbroddi í liði gestgjafa Ítala á mótinu sem fer fram í Chieti næsta haust. Van Malderen var með 27 stig og 11 fráköst í fyrri leiknum gegn Haukum. Með Parma spilar einnig ein efnilegasta körfuboltakona landsins. Valeria Battisodo var fyrirliði ítalska 18 ára landsliðsins sem vann b-deild Evrópumótsins síðasta sumar og skoraði þá 11,5 stig í leik þar af var hún með 16 stig í úrslitaleiknum. Battisodo var í byrjunarliði Parma í fyrri leiknum en Haukaliðið hélt henni í aðeins 2 stigum á 26 mínútum og þvingaði hana til þess að tapa 7 boltum.
Parmaliðið lék ekki með Megan Mahoney og Króatann Emiliju Podrug í fyrri leiknum sem báðar gátu ekki spilað þann leik vegna meiðsla. Parmaliðið verður því enn sterkara á Ásvöllum í kvöld en það var í Parma fyrir þremur vikum. Parma vann fyrri leikinn með 16 stiga mun, 102-86, þar sem Ifeoma Okonkwo skoraði 25 stig fyrir Haukaliðið, Unnur Tara Jónsdóttir skoraði 19 og Helena Sverrisdóttir var með 17 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar.
Helenu Sverrisdóttur, fyrirliða Haukaliðsins, vantar nú aðeins fimm stig til þess að verða fyrsta íslenska konan til þess að skora 200 stig í Evrópuleikjum. Helena hefur skoraði 195 stig í 11 leikjum sem gera 17,7 stig að meðaltali í leik. Helena hefur skorað 21,8 stig að meðaltali í keppninni í ár og er sem stendur í 4. til 5. sæti yfir stigahæstu leikmenn evrópukeppninnar í ár.
Frétt af www.haukar-karfa.is