spot_img
HomeFréttirHreggviður: Skelfilegur seinni hálfleikur

Hreggviður: Skelfilegur seinni hálfleikur

22:49 

{mosimage}

Hreggviður Magnússon hóf leikinn með ÍR af krafti gegn Njarðvík í kvöld en svo fjaraði undan honum líkt og öllu ÍR liðinu í síðari hálfleik. Villuvandræði ÍR og skotsýning Njarðvíkinga gerði útslagið. „Við höfum verið að spila nokkuð vel undanfarið og fyrri hálfleikurinn í kvöld var bara dæmi um það,“ sagði Hreggviður sem gerði 18 stig í kvöld.

 

ÍR leiddi með 9 stigum í Ljónagryfjunni í kvöld þegar flautað var til hálfleiks en áttu svo erfitt uppdráttar í þeim síðari. „Síðari hálfleikurinn byrjar á mjög góðri hittni hjá Njarðvík, við lentum í villuvandræðum og svo í fjórða leikhluta tæmdist allt loftið úr okkur og við gerðum ekki það sem við áttum að gera,“ sagði Hreggviður og vonbrigðin leyndu sér ekki.

 

Aðspurður hvort breidd ÍR liðsins væri ábótavant sagði Hreggviður svo ekki vera. „Þessi mannskapur hjá okkur núna hefur spilað þónokkra leiki saman og við eigum fullt erindi í hvaða lið sem er. Í kvöld áttum við einfaldlega skelfilegan seinni hálfleik og þess má geta að það eru mörg önnur lið sem keyra á færri leikmönnum en við,“ sagði Hreggviður og bætti við að núverandi hópur ÍR hefði verið skemmst saman allra liða í Iceland Express deildinni og sagði lærdómskúrfuna lang hæsta hjá ÍR af öllum liðum deildarinnar.

 

ÍR situr nú í 9. sæti með fjóra sigra og átta tapleiki en þeir eiga næst leik gegn Skallagrím þriðjudaginn 9. janúar í 8-liða úrslitum Lýsingarbikarsins.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -