23:37
{mosimage}
(Fannar Helgason með frákast að hætti Dennis Rodman)
ÍR-ingar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum í Lýsingarbikarnum eftir frækinn 92-88 sigur á Skallagrím. Leikurinn var jafn og spennandi allt frá upphafi til enda en ÍR reyndust sterkari í Seljaskólanum þar sem Eiríkur Önundarson kláraði leikinn á vítalínunni. Tölfræði úr leiknum hefur enn ekki borist.
Axel Kárason opnaði leikinn með þriggja stiga körfu og kom Sköllunum í 3-0 en heimamenn höfðu engu að síður yfir að loknum fyrsta leikhluta 27-26. Í öðrum leikhluta náðu Skallagrímsmenn upp smávægilegri forystu en Steinar Arason setti niður þriggja stiga körfu á lokasekdúndum hálfleiksins og minnkaði muninn í 50-51.
Í upphafi þriðja leikhluta fékk Darrell Flake sína fjórðu villu í liði Skallagríms og var sendur af Val Ingimundarsyni, þjálfara, á tréverkið og við það varð Skallagrímssóknin veikburða. ÍR-ingar gengu á lagið og breyttu stöðunni fljótlega í 61-55. Axel Kárason jafnaði metin í 61-61 með þriggja stiga körfu en ÍR-ingar gerðu þá 12 stig í röð án þess Borgnesingar næðu að svara. Liðin héldu svo inn í fjórða leikhluta í stöðunni 73-64 þar sem Hafþór Gunnarsson setti niður góðan þrist fyrir Skallana.
{mosimage}
Skallagrímur minnkaði muninn í þrjú stig í upphafi loka leikhlutans, 75-72 en þá setti Steinar Arason niður þrist og jók muninn í sex stig, 78-72. Þetta varð raunin í fjórða leikhluta, ávallt þegar Skallagrímur virtist vera að nálgast ÍR hertu heimamenn róðurinn og það reyndist gestunum um megn.
Eins og fyrr segir hefur tölfræðin enn ekki borist en ÍR-ingar voru að leika vel í kvöld sem liðsheild og voru grimmir í sóknarfráköstum sem reyndust Borgnesingum oft dýrkeypt. Í síðari hálfleik reyndi Jovan Zdravevski hvað hann gat til þess að skjóta Skallagrím fram úr ÍR en hann uppskar ekki erfiði síns og því eru það ÍR sem halda inn í undanúrslitin í bikarkeppninni í fyrsta sinn síðan 2003.
{mosimage}
{mosimage}