09:54
{mosimage}
Toppsætið í Iceland Express deild kvenna var í húfi fyrir Íslandsmeistara Hauka í gærkvöldi þegar þær heimsóttu Stúdínur í íþróttahús Kennaraháskólans. Strax á upphafsmínútum leiksins varð ljóst að ÍS myndi eiga erfitt uppdráttar í leiknum þar sem Haukavörnin var þétt og erfið viðureignar.
Helena Sverrisdóttir gerði fyrstu stig leiksins og Haukar pressuðu stíft á ÍS um allan völl með þeim afleiðingum að heimakonur hentu boltanum frá sér í gríð og erg. Stúdínur voru alls með 35 tapaða bolta í leiknum. Haukar komust strax í 0-8 áður en Þórunn Bjarnadóttir gerði fyrstu stig ÍS þegar tæpar fimm mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta. Staðan að upphafsleikhluta loknum var 8-20 fyrir Hauka en hann var ekki meiri þökk sé fínni innkomu hjá Stelllu Kristjánsdóttur í liði ÍS.
{mosimage}
Sterk og hreyfanleg Haukavörnin gerði endanlega út um leikinn í öðrum leikhluta þar sem ÍS gerðu aðeins fimm stig í leikhlutanum. Staðan í hálfleik var 13-41 fyrir Hauka og sigurinn vís.
Sigrún Ámundadóttir átti góða spretti í þriðja leikhluta fyrir Hauka þar sem Íslandsmeistararnir gerðu 33 stig gegn 7 frá ÍS. Stúdínur voru, ótrúlegt en satt, ekki enn búnar að kasta inn handklæðinu þrátt fyrir gífurlegan mun. Þær tóku sig til í andlitinu og höfðu sigur í fjórða og síðasta leikhlutanum, 24-22. Þar fór Helga Jónasdóttir fremst í flokki á blokkinni og réðu Haukakonur lítið sem ekkert við hana. Þess má geta að fjórar fyrstu körfurnar í leikhlutanum voru þriggja stiga körfur, tvær frá ÍS og tvær frá Haukum.
{mosimage}
Baráttuandinn kom einfaldlega allt of seint hjá Stúdínum sem urðu að sætta sig við annan stóran ósigur gegn Haukum með stuttu millibili.
Atkvæðamest í liði Hauka var Ifeoma Okonkwo með 22 stig en Helena Sverrisdóttir gerði 19 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hjá ÍS var Helga Jónasdóttir með 15 stig og 6 fráköst og ljóst að fáir leikmenn fá við hana ráðið í deildinni þegar hún dettur í gírinn.
ÍS er sem fyrr í 4. sæti deildarinnar með 8 stig en Haukar í toppsætinu með 20 stig ásamt Keflavík. Næsti leikur Hauka verður þann 17. janúar gegn Breiðablik í Smáranum en ÍS mætir Hamri í Hveragerði.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}