spot_img
HomeFréttirBowie fór á kostum í Grindavíkursigri

Bowie fór á kostum í Grindavíkursigri

21:58 

{mosimage}

 

 

Grindavíkurkonur börðust af krafti í kvöld og uppskáru góðan 88-82 sigur á Keflavík í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Grindavíkurkonur eru nú í 3. sæti deildarinnar með 16 stig og hafa saxað á forskot Keflavíkur sem er í 2. sæti með 20 stig. Haukastúlkur eru einar á toppnum með 22 stig eftir stórsigur á Breiðablik.

 

Keflavík gerði fjögur fyrstu stig leiksins í kvöld en þá vöknuðu Grindavíkurkonur til lífsins í Röstinni og komust í 9-7. Forystuna létu þær ekki af hendi eftir það. Tamara Bowie fór á kostum í fyrsta leikhluta í liði Grindavíkur og skoraði nánast þegar henni hentaði, jafnt inni í teig sem úti á velli og dreif hún liðsfélaga sína áfram með mikilli baráttu.

 

Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 27-17 fyrir Grindavík sem voru duglegar að refsa Keflavík með vel tímasettum hraðaupphlaupum.

 

Í öðrum leikhluta virtist sem Keflavíkurkonur væru að jafna sig og hófu þær að saxa verulega á forskotið en þær lögðu ofuráherslu á að reyna að hindra Bowie frá því að skora sem losaði um aðra leikmenn í Grindavíkurliðinu. Ingibjörg Jakobsdóttir og Íris Sverrisdóttir voru duglegar við að nýta sér glufurnar sem sköpuðust þegar Bowie var í strangri gæslu og gerðu nokkrar mikilvægar körfur í hraðaupphlaupum. TaKesha Watson reyndi hvað hún gat að jafna metin fyrir Keflavík en því miður voru stöllur hennar í liðinu ekki í sama takt og hún. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 53-43.

 

Keflavík gekk betur í þriðja leikhluta og náðu að saxa á forskotið. Svo virtist sem Grindavík ætlaði að nýju að stinga af um miðbik leikhlutans en Keflavík gerði vel og náði að minnka muninn í þrjú stig fyrir loka leihlutann, 72-69.

 

Lítil þreytumerki virtust vera á Bowie í liði Grindavíkur en hún lék allar 40 mínúturnar í kvöld. Lokaleikhlutinn var æsispennandi þar sem Keflavík missti Grindavík að nýju fram úr sér en náðu aftur að minnka muninn í þrjú stig en lengra komust þær ekki. Grindavík hélt fengnum hlut og hafði að lokum sex stiga sigur 88-82 og sinn fyrsta sigur á Keflavík á þessari leiktíð í Iceland Express deildinni.

 

Tamara Bowie fór hamförum í leiknum með 36 stig, 27 fráköst, 7 varin skot og 5 stolna bolta. Næst henni í Grindavíkurliðinu var Ingibjörg Jakobsdóttir með 16 stig. María Ben Erlingsdóttir gerði 24 stig hjá Keflavík og tók 13 fráköst, TaKesha Watson gerði 22 stig og Bryndís Guðmundsdóttir 20.

 

Grindavík er sem fyrr í 3. sæti en nú með 16 stig en Keflavík er í 2. sæti með 20 stig.

 

Staðan í deildinni

 

Tölfræði leiksins

 

Frétt og mynd af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -