15:46
{mosimage}
Njarðvíkingar taka á móti Skallagrím í Ljónagryfjunni í kvöld í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Á sama tíma mætast KR og Keflavík í DHL-Höllinni í Vesturbænum svo það verða sannkallaðir stórleikir hjá Suðurnesjarisunum í kvöld. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15.
Njarðvík og Skallagrímur mættust í annarri umferð á þessari leiktíð í Borgarnesi þar sem Íslandsmeistararnir stálu sigrinum í blálok leiksins og voru lokatölurnar 84-87. Þá mættust liðin einnig í úrslitum á síðustu leiktíð þar sem Njarðvíkingar fögnuðu sigri. Víkurfréttir tóku púlsinn á þjálfurum liðanna og sagði Valur Ingimundarson að Skallarnir þyrftu að eiga toppleik til að ná sigri í Ljónagryfjunni. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, sagði að um fjögurra stiga leik væri að ræða.
„Með sigri geta þeir komist upp fyrir okkur. Við erum annars í fínum gír og ég trúi því þó hvíldin hafi verið af hinu slæma, því við duttum út úr bikarnum, hafi komið sér vel fyrir okkur. Það er gott ástand á liðinu og að öllu óbreyttu ættum við að vera fullmannaðir og klárir í slaginn í kvöld,” sagði Einar Árni. Bæði lið eru dottin út úr bikarkeppninni því Skallagrímur lá gegn ÍR svo eina sem liðin hafa að keppa að þessa stundina er Íslandsmeistaratitillinn.
„Það er langt síðan við unnum í Njarðvík. Ljónagryfjan er erfið og Njarðvíkingar tapa ekki mörgum leikjum þar. Það verður erfitt að ná í sigur eins og þeir eru mannaðir í dag,” sagði Valur Ingimundarson. Borgnesingar eiga dygga stuðningsmenn sem fylgja þeim víða og má fastlega gera ráð fyrir góðri mætingu í kvöld.
Ef Skallarnir detta í þriggja stiga gírinn þá verður róður Njarðvíkinga þungur eins og Keflvíkingar fengu að kynnast fyrir skemmstu. „Þeir eru með marga skotmenn og við verðum að stoppa þá. Við höfum verið að skora fínt í síðustu leikjum og þurfum að byggja ofan á það. Sóknin hjá okkur er á réttri leið en við viljum gera betur í vörninni,” sagði Einar að lokum en hann vonaðist til þess að Njarðvíkingar myndu fjölmenna í kvöld og styðja vel við bakið á sínum mönnum.
Aðrir leikir kvöldsins í Iceland Express deild karla:
19:15KR-Keflavík
ÍR-Hamar/Selfoss
Fjölnir-Snæfell