spot_img
HomeFréttirSpyrjum að leikslokum

Spyrjum að leikslokum

{mosimage}

 

 

Keflavík og Grindavík hafa tapað samtals níu síðustu deildarleikjum sínum í röð í Iceland Express deild karla. Grindavík hefur tapað fimm leikjum í röð og Keflavík fjórum. Keflavík tapaði í gærkvöldi gegn KR 93-82 en Grindavík á leik í kvöld gegn botnliði Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði.

 

Nokkuð sennilegt þykir að um met sé að ræða þar sem tvö Suðurnesjalið í úrvalsdeild karla tapi sameiginlega níu deildarleikjum í röð. Þá vaknar sú spurning hvort Suðurnesin séu að missa tangarhaldið sem þau hafa haft á íslenskum körfuknattleik í áraraðir.

 

Taphryna Keflavíkur hófst í Ljónagryfjunni þann 21. desember þegar þeir steinlágu gegn Njarðvík 86-72. Næsti leikur í deildinni var svo gegn Snæfell þann 30. desember þar sem Keflavík tapaði með 13 stiga mun, 80-67. Þriðji tapleikurinn kom í Borgarnesi eftir dramatískar lokamínútur en heimamenn höfðu sigur 100-98. Síðasti tapleikurinn og sá fjórði í röðinni kom í gær í DHL-Höllinni þar sem KR lagði Keflavík 93-82.

 

Grindvíkingar hafa mátt þola lengri taphrynu en nágrannar sínir úr Keflavík en þeirra axarsköft hófust þann 19. nóvember í Borgarnesi. Skallagrímsmenn færðu þeim þá sinn fyrsta ósigur í hrynunni 83-74. Næsti ósigur Grindvíkinga kom á heimavelli í Röstinni er þeir lutu í lægra haldi gegn Snæfell 68-75. Þann 17. desember mættu Grindvíkingar í Sláturhúsið og freistuðu þess að næla sér í tvö stig en fóru heim með fjögurra stiga tap á bakinu, 90-86. Skammt var stórra högga á milli og næsti andstæðingur var topplið KR sem kom og nældi sér í sigur á heimavelli Grindvíkinga, 78-89. Síðasti ósigurinn og sá fimmti í röðinni var nokkuð áfall fyrir Grindvíkinga þegar Fjölnismenn komu í Röstina og stálu þar tveimur stigum af miklu harðfylgi. Lokatölur þess leiks voru 78-85 Fjölni í vil og fimmti tapleikur Grindavíkur í röð.

 

Þegar 13. umferð í Iceland Express deild karla er við það að ljúka eru Njarðvíkingar á toppi deildarinnar með KR en Keflavík er í fimmta sæti og Grindvíkingar í því sjötta. Ekki er rúm fyrir fleiri feilspor í herbúðum Keflavíkur og Grindavíkur að svo stöddu ætli þeir sér að komast ofar í töfluna, gera atlögu að deildarmeistaratitlinum eða hreinlega hafa heimavallarrétt þegar úrslitakeppnin hefst í mars.

 

{mosimage}

 

Suðurnesjaliðin Njarðvík og Keflavík hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum allar götur síðan 1999 þegar KR urðu meistarar. Í ár eru það Njarðvíkingar sem eiga titil að verja og hafa þeir átt upp og ofan tímabil þar sem þeir sjálfir m.a. töpuðu sjö leikjum í röð. Í deild, bikar og Evrópukeppninni.

 

Þetta hikst Suðurnesjaliðanna hefur vissulega gefið öðrum liðum byr undir báða vængi enda eru nú KR, Snæfell og Skallagrímur öll ofan við Grindavík og Keflavík í deildinni en Njarðvíkingar eru á toppnum með KR.

 

Hver svo sem staðan er í Iceland Express deild karla einmitt þessa stundina verður ekki fram hjá því litið að síðustu 26 ár í úrvalsdeild karla hefur það aðeins fjórum sinnum gerst að Njarðvík, Keflavík eða Grindavík verði ekki Íslandsmeistari. Frá leiktímabilinu 1980-81 og fram að síðustu leiktíð hefur KR tvívegis orðið Íslandsmeistari (1989-90 og 1999-2000). Haukar urðu meistarar 1987-88 og Valsmenn voru meistarar tímabilið 1982-1983. Grindavík hefur aðeins einu sinni orðið Íslandsmeistari, tímabilið 1995-1996, en hinir titlarnir hafa skipts bróðurlega á milli Njarðvíkur og Keflavíkur.

 

Skemmst er þess að bíða að úrslitakeppnin í Iceland Express deildunum hefjist og má fastlega gera ráð fyrir því að Suðurnesjaliðin verði öll þar með. Hins vegar er ljóst að Grindavík og Keflavík þurfa að gyrða ærlega í brók ef ekki á illa að fara.

 

Suðurnesjaliðin Njarðvík, Keflavík og Grindavík hafa eins og áður segir verið mjög áberandi í íslenskum körfuknattleik en yfirstandandi tímabil hefur ekki verið það besta hjá þeim. Vesturbæjarstórveldið KR hungrar eftir titli sem og Snæfell og Skallagrímur. Víst er að þessi þrjú lið ætla sér öll stóra hluti. Fróðlegt verður að sjá hvernig deildinni mun vinda fram á næstunni en það má enginn afskrifa Keflavík og Grindavík, það væru stór mistök. Annars er best að spyrja að leikslokum.

 

Íslandsmeistarar síðustu 26 ára:

 

1980-1981: Njarðvík

1981-1982: Njarðvík

1982-1983: Valur

1983-1984: Njarðvík

1984-1985: Njarðvík

1985-1986: Njarðvík

1986-1987: Njarðvík

1987-1988: Haukar

1988-1989: Keflavík

1989-1990: KR

1990-1991: Njarðvík

1991-1992: Keflavík

1992-1993: Keflavík

1993-1994: Njarðvík

1994-1995: Njarðvík

1995-1996: Grindavík

1996-1997: Keflavík

1997-1998: Njarðvík

1998-1999: Keflavík

1999-2000: KR

2000-2001: Njarðvík

2001-2002: Njarðvík

2002-2003: Keflavík

2003-2004: Keflavík

2004-2005: Keflavík

2005-2006: Njarðvík

 

Frétt og myndir af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -