spot_img
HomeFréttirFramlengt á Sauðárkróki í taugatitrandi leik

Framlengt á Sauðárkróki í taugatitrandi leik

00:37 

{mosimage}

 

 

Í kvöld mættust á Króknum Tindastóll og ÍR í leik tveggja liða sem hafa verið á

uppleið í síðustu leikjum. Þau voru einnig jöfn að stigum í 7. og 8. sæti með 10

stig hvort, það mátti því búast við jöfnum leik. Byrjunarlið Tindastóls var Lamar,

Gulli, Ísak, Vladimir og Zeko. ÍR byrjaði hinsvegar með Steinar, Hreggvið, Nate,

Eirík og Fannar í byrjun. Leikurinn fór rólega af stað, allavega hvað hittni

varðaði. Vlad skoraði fyrstu körfu leiksins fyrir Stólana, en síðan fylgdu þrjár

þriggja stiga körfur frá ÍR á meðan Gulli setti niður tvö víti. Fyrsti leikhluti

einkenndist af slakri hittni og mikilli baráttu, enda var staðan að honum loknum

14-15.

     

ÍR-ingar byrjuðu annan leikhluta með smá þriggja stiga sýningu og komu muninum í 8

stig, 19-27. Sá munur hélst lítið breyttur fram í hálfleik og staðan í honum var

36-43. Í öðrum leikhluta fannst leikmönnum Tindastóls dómgæslan heldur farin að

halla á sig og mótmæltu oft kröftuglega. Dómarnir fengu sig svo fullsadda þegar

leikmenn gengu til búningsklefa í hálfleik og Gulli fékk eina tæknivillu fyrir

mótmæli. ÍR menn hittu vel í fyrri hálfleik, sérstaklega úr þristum, en þeir settu 8

slíka niður í hálfleiknum. Stólarnir áttu hinsvegar í erfiðleikum í sókninni, Lamar

náði lítið að slíta sig lausan og aðrir náðu ekki að stíga upp í staðinn.

 

{mosimage}

 

ÍR byrjaði síðari hálfleik á að bæta við einu stigi úr víti, en síðan vaknaði Svavar

fyrir Stólana og skoraði 9 stig á rúmum tveimur mínútum, en munurinn minnkaði ekki

að ráði því ÍR-ingar virtust alltaf eiga svör ef Stólarnir virtust ætla að nálgast

þá. Staðan 64-70 eftir þriðja leikhluta og skagfirskir áhorfendur ekkert alltof

bjartsýnir á framhaldið. ÍR hélt sínu striki í loka fjórðungnum og bættu heldur við

forskotið en hitt. Í stöðunni 72-81 fékk Ísak villu á sig fyrir brot sem mönnum

fannst ÍR hafa komist upp með stuttu áður og fannst gæta ósamræmis hjá dómurunum.

Gulli Tindastólsmaður lét eitthvað út úr sér og fékk aðra tæknivillu og var vísað út

úr húsinu með það sama. Við þetta áfall þjöppuðu Tindastólsmenn sér saman og

breyttu stöðunni úr 72-83 í 79-85. Vörnin small saman og Lamar litli var vaknaður

og með 6 vítum á síðustu tveimur mínútunum náði hann að jafna leikinn 85-85 og um 20

sekúndur til leikloka.

 

{mosimage}

 

ÍR tók leikhlé og fóru svo í síðustu sóknina. Hreggviður fékk boltann og það var greinilegt að hann átti að klára sóknina með því að sækja á Vlad því teigurinn var hreinsaður fyrir hann. Hreggviður fór hægra megin við hann eins og svo oft áður í leiknum en Vlad náði að trufla svo Hreggviður fékk erfitt skot og náði ekki að hitta, ÍR náði frákastinu en náði ekki að nýta sér það áður en flautan gall. Niðurstaðan eftir venjulegan leiktíma því jöfn, 85-85 og framlenging staðreynd.

 

Þegar þarna var komið var Ómar Sævarsson ÍR-ingur kominn með 5 villur og Gulli

Stólari ekki meira með heldur eins og áður er getið. Bæði liðin komin með bónus,

enda fór framlengingin mikið fram á vítalínunni.

 

{mosimage}

 

Framlenging: Vlad skoraði úr öðru af tveimur vítum 86-85. Hreggviður setti niður

fjögur víti á móti körfu frá Zekovic, staðan 88-89. Steinar bætti við einu stigi úr

tveimur vítatilraunum fyrir ÍR. Síðan fylgdu fjögur víti frá Stólunum sem fóru öll

ofaní og þeir komnir yfir 92-90. Hreggviður jafnaði með tveimur vítum, Lamar skoraði

með skoti, en aftur jafnaði Hreggviður með tveimur vítum, 94-94 og tæpar tvær

mínútur eftir af framlengingunni.

 

Það hafði fækkað um einn í hvoru liði, Ísak Einarsson Tindastóli og Keith Vassel ÍR voru komnir með 5 villur. Næst skoraði Lamar úr tveimur vítum og einu stökkskoti og munurinn kominn í 4 stig. Taugarnar virtust hinsvegar bresta hjá ÍR, þeir hittu ekki eða misstu boltann. Lamar fékk 4 víti, en hitti aðeins úr einu og staðan 99-94. Þá hitti Eiríkur Önundarson úr þriggja stiga skoti og kom muninum niður í tvö stig og Kiddi tók leikhlé fyrir Tindastól, enda lítið eftir. Eftir hléið var brotið á Zeko og hann setti bæði vítin niður og munurinn aftur 4 stig. Hreggviður reyndi 3ja stiga skot fyrir ÍR sem geigaði,

Stólarnir náðu frákastinu og Steinar braut á Ingva sem fór á vítalínuna fyrir

Tindastól og innsiglaði sigurinn með tveimur vítum, 103-97.

 

Mjög svo ljúfur sigur fyrir heimamenn sem voru allan leikinn á eftir nema þegar það skipti máli, þeir höfðu yfir 14-13 í fyrsta leikhluta og síðan ekki næst fyrr en í byrjun

framlengingar. ÍR-ingar voru hinsvegar hálf niðurlútir í lokin þegar þeim var ljóst

að þeir höfðu tapað leik sem þeir leiddu eiginlega allan tímann og hefðu með réttu

átt að vinna, en svona eru íþróttirnar stundum eins sést kannski best á íslenska

landsliðinu í handbolta, það er oft stutt á milli hláturs og gráturs í sportinu.

 

{mosimage}

 

Stigahæstu menn Tindastóls voru Lamar með 30 stig, Zeko 23 og Svavar með 21. Hjá ÍR

voru það Hreggviður með 30, Nate og Sveinbjörn 15 hvor.  Tindastóll er nú kominn með 12 stig í 7. sæti deildarinnar og má segja að falldraugurinn sé kvaddur í bili og sæti í úrslitakeppninni næsta takmark.

 

Dómarar leiksins voru þeir Kristinn Óskarsson og Halldór Geir Jensson. Gætti stundum

ósamræmis milli dóma hjá þeim að mati heimamanna, en komust þokkalega frá sínu.

 

Texti: Jóhann Sigmarsson

Myndir: Jóel Þór Árnason

 

{mosimage}

 

 

 

 

{mosimage}

 

 

 

 

{mosimage}

 

 

 

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -