spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Snæfell með mikla yfirburði

Umfjöllun: Snæfell með mikla yfirburði

01:27

{mosimage}
(Shouse fór á kostum í liði Snæfells)

Snæfell vann Hauka í kvöld, 96-71, í 14. umferð Iceland Express-deild karla. Snæfell var yfir allan leikinn og náði mest 30 stiga forystu í 3. leikhluta. Staðan í hálfleik var 49-34. Justin Shouse var bestur hjá Snæfell en hann skoraði 19 stig og gaf 7 stoðsendingar en Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur með 20 stig. Hjá Haukum skoraði Roni Leimu 27 stig.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins hvort liðið ætlaði sér sigur í leiknum. Snæfell skoraði fyrstu 5 stig leiksins áður en Haukar minnkuðu muninn. Snæfell jók muninn í 8 stig, 10-2, og þegar leikhlutinn var allur munaði 8 stigum, 27-19. Hlynur Bæringsson var frábær hjá Snæfell en hann skoraði 12 stig í leikhlutanum. Hjá Haukum voru erlendu leikmenn liðsins atkvæðamestir en þeir skoruðu öll stig liðsins.

Snæfell hóf 2. leikhluta með því að skora 8 fyrstu stigin og munurinn kominn í 16 stig. Eftir það var róðurinn þungur hjá Haukum því Snæfell jók muninn jafnt og þétt en hann var kominn í 21 stig um tíma. Haukar enduðu hálfleikinn með 2-8 áhlaupi og munaði því 15 stigum í hálfleik, 49-34. Frábær endasprettur gestana hélt smá lífi í þeim og ef þeir héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik gætu þeir minnkað muninn enn meir.

{mosimage}

Seinni hálfleik varð aldrei spennandi því Snæfell fór á kostum á báðum endum vallarins. Á meðan ríkti algjört andleysi hjá gestunum sem áttu fá svör við góðum leik heimamanna. Þrátt fyrir að munurinn var kominn í 30 stig hættu leikmenn Snæfells ekki að berjast og skutluðu sér á boltann og börðust í fráköstunum. Eftir 3 leikhluta var staðan, 77-50.

Haukar hófu að pressa allan völlin í lokaleikhlutanum og virtist það virka í upphafi þar sem töluvert fát var á leik heimanna. Fljótlega setti Geoff Kotila, þjálfari Snæfells, leikstjórnandann sinn Justin Shouse inná og eftir það róaðist leikur heimamanna og varð mun yfirvegaðri. Lokatölur leiksins voru 96-71 og endaði Snæfell á því að skora 7 síðustu stig leiksins.

{mosimage}

Hjá Snæfell fengu allir að spila töluvert en Geof Kotila notaði 11 leikmenn í fyrri hálfleik. Allir leikmenn liðsins komust á blað nema Bjarne Nielsen. Justin Shouse fór á kostum í liði Snæfells og átti án efa einn sinn besta leik í búningi Snæfells. Hann stjórnaði leik liðsins af krafti og gaf tóninn með frábærri baráttu. Til að mynda skutlaði hann sér á eftir lausum boltum í 1. leikhluta og endaði ofan á ritaraborðinu og rann fyrir aftan það. En hann stóð fljótlega upp og uppskar lófaklapp frá fjölmörgum áhorfendum enda slík barátta til fyrirmyndar.

Sigurður Þorvaldsson var sterkur hjá heimamönnum en hann hitti mjög vel ásamt Hlyni Bæringssyni sem átti einnig góðan dag en þeir félagar skoruðu 20 og 19 stig í leiknum.

Hjá Haukum var Roni Leimu mjög góður en hann skoraði 27 stig. Sævar Haraldsson stjórnaði leik Hauka ágætlega en hann var með 11 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Staðan í Iceland Express-deild karla

myndir og texti: [email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -