spot_img
HomeFréttirMagnús Þór: Áttum að bursta þennan leik

Magnús Þór: Áttum að bursta þennan leik

13:15 

{mosimage}

 

 

Keflvíkingum var ýtt úr úr Lýsingarbikarkeppninni í gærkvöldi er þeir mættu Hamri/Selfoss í Hveragerði. Lokamínútur leiksins voru spennuþrungnar en það voru heimamenn sem fóru með 72-70 sigur af hólmi. Isma´il Muhammad gerði 16 stig í liði Keflavíkur en hjá Hamri/Selfoss voru þeir George Byrd og Bojan Bojovic báðir með 17 stig. Víkurfréttir tóku Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliða Keflavíkur tali og átti hann fá svör við leiknum í gær og gengi Keflavíkurliðsins að undanförnu.

 

,,Þetta var hörkuspenna en við klúðruðum þessu á síðasta korterinu og þeir gengu á lagið og skoruðu jafnt og þétt,” sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir en Keflavík hafði yfir í hálfleik 26-35. Í síðari hálfleik fór að halla undan fæti hjá Keflavík sem hafði þó öll tækifæri á því að klára leikinn. ,,Boltinn skrúfaðist bara upp úr körfunni hjá okkur á meðan allt gekk upp hjá Hamri/Selfoss. Það er vissulega erfitt að spila þarna en við áttum að bursta þennan leik. Við héldum kannski að þetta væri komið hjá okkur og gerðum þau mistök að slappa af,” sagði Magnús.

 

Magnús hafði fá svör við þessu og vildi meina að einhver hefði hreinlega fengið sér sæti á körfunni sem Keflavík var að sækja á og meinaði boltanum aðgang í netið. ,,Það er þrælsvekkjandi að tapa svona og ég hef í raun engin svör við þessu. Við verðum bara að bíta í þetta súra epli og vinna þennan eina titil sem eftir er í boði fyrir okkur,” sagði Magnús að lokum og átti þá við Íslandsmeistaratitilinn.

 

Magnús gerði 14 stig í leiknum í gær og skaut 7 þriggja stiga skotum en aðeins tvö þeirra rötuðu rétta leið. Annað árið í röð er því bikarsvekkelsi í herbúðum Keflavíkur en Keflavíkurkonur eiga þó enn möguleika á því að verða bikarmeistarar en þær mæta Hamri í Sláturhúsinu í kvöld í undanúrslitum og geta hefnt fyrir strákana.

 

Frétt og mynd af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -