21:59
{mosimage}
Njarðvíkingar ríghalda í toppsæti Iceland Express deildarinnar í körfuknattleik en í kvöld rúlluðu þeir yfir Tindastólsmenn í Ljónagryfjunni. Lokatölur leiksins voru 101-70 Njarðvíkingum í vil þar sem Brenton Birmingham fór fremstur í flokki með 24 stig.
Leikurinn fór vel af stað og setti Jeb Ivey niður þrist en Lamar Karim svaraði í sömu mynt hinum megin á vellinum. Gestirnir byrjuðu í svæðisvörn og gekk það þokkalega og tókst þeim að gera Friðriki Stefánssyni, Igor Beljanski og Agli Jónassyni nokkuð erfitt fyrir á blokkinni. Lamar fór mikinn í upphafi leiks og áttu Njarðvíkingar í basli með að verjast honum. Arnar Ingvarsson gaf gestunum tóninn þegar hann kom Tindastól í 15-19 með þriggja stiga körfu en Halldór Karlsson gerði síðustu körfu leikhlutans fyrir Njarðvík og minnkaði muninn í 19-20.
Brenton gerði sjö fyrstu stig Njarðvíkinga í 2. leikhluta og breytti stöðunni í 26-24 Njarðvík í vil en eftir það sást lítið til hans í öðrum leikhluta. Þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður fóru hlutirnir að smella saman hjá Njarðvík en þeir voru fremur stirðir framan af leik. Jeb Ivey kom Njarðvík í 37-33 með þriggja stiga körfu en gestirnir hleyptu þeim ekki á flug og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 40-35.
{mosimage}
Brenton gerði 9 stig fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik og þeir Jóhann Árni og Jeb Ivey voru með sín 8 stigin hvor. Hjá Tindastól var Lamar Karim lang atkvæðamestur með 15 stig en Vladimir Vujcic var kominn með 3 villur hjá gestunum.
Í þriðja leikhluta gerðu Njarðvíkingar út um leikinn. Brenton byrjaði á því að setja þrist og Njarðvíkurvörnin vann svo boltann og Ivey kom Njarðvík í 45-35. Innan skamms var staðan orðin 55-41 og var það Brenton Birmingham, enn eina ferðina, sem sprakk út í þriðja leikhluta og reif sína menn áfram. Brenton gerði þrjár þriggja stiga körfur í leikhlutanum og þá voru þeir Jóhann og Ivey að spila vel. Leikhlutanum lauk í stöðunni 74-53 fyrir Njarðvík en Lamar Karim stal boltanum á lokasekúndum leikhlutans, vippaði sér upp eins og honum er einum lagið og tróð með tilþrifum. Þessi tilþrif voru því miður, fyrir Tindastól, það eina sem Karim hafði fram að leggja í þriðja leikhluta. Karim hékk of mikið á boltanum sem bitnaði á liðsfélögum hans.
{mosimage}
Fjórði og síðasti leikhlutinn var svo formsatriði fyrir Njarðvíkinga að klára. Einar Árni, þjálfari Njarðvíkinga, leyfði þá lítt reyndari mönnum að spreyta sig og átti Rúnar Erlingsson fína innkomu og sallaði niður tveimur þriggja stiga körfum. Lokatölur 101-70 og sáu Tindastólsmenn aldrei til sólar í síðari hálfleik eftir fínan fyrri hálfleik. Njarðvíkurliðið lék vel í síðari hálfleik og áttu Tindastólsmenn í mesta basli á köflum með að komast upp að körfunni.
Brenton lauk leik með 24 stig, Ivey gerði 18 og Jóhann Árni 14. Hjá Tindastól gerði Lamar Karim 21 stig, Svavar Birgisson 11 og Milojica Zekovic 11.
Njarðvíkingar eru sem fyrr á toppi deildarinnar með 26 stig en Tindastóll er í 7. sæti með 12 stig. Sigur Njarðvíkinga í kvöld var sá áttundi í röðinni í deildinni og þar með bundu þeir enda á fjögurra leikja sigurgöngu Stólanna.
Frétt og myndir af www.vf.is
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}