spot_img
HomeFréttirÓmar: Menn eru beittari en áður

Ómar: Menn eru beittari en áður

15:25

{mosimage}

 

 

ÍR-ingar hafa verið í sviðsljósinu síðustu daga en um síðustu helgi urðu þeir bikarmeistarar og í kvöld mæta nýrkýndir bikarmeistararnir KR sem situr í 2. sæti deildarinnar. Karfan.is tók tal af Ómari Sævarssyni svona rétt til þess að athuga hvort liðsmenn ÍR væru komnir niður á jörðina og klárir í slaginn í kvöld.

 

,,Við erum komnir niður á jörðina,” sagði Ómar hress í bragði. Síðasta deildarleik liðanna lauk með sigri KR í Seljaskóla en Ómar sagði ÍR liðið vera allt annað í dag en það lið sem lá gegn KR. ,,Sá ósigur var okkur að kenna, það var lítið sjálfstraust í liðinu á þessum tíma. Nate var nýkominn til okkar og Hreggviður og Steinar einnig að komast að nýju inn í liðið. KR kláraði þann leik nokkuð auðveldlega en ÍR liðið er allt annað frá þessum síðasta KR leik,” sagði Ómar.

 

Bikartitillinn hefur eflaust hleypt nýju blóði í alla starfsemi félagsins og segir Ómar að þeir séu komnir á bragðið. ,,Þegar maður verður bikarmeistari þá er maður kominn á bragðið með að vinna og þá kemur ekkert annað til greina en sigur. Karakterinn í liðinu okkar er breyttur og Jón Arnar hefur komið með helling inn í liðið. Menn eru beittari núna og hafa meiri trú á eigin getu,” sagði Ómar.

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með ÍR í framhaldinu en sæti þeirra í úrslitakeppninni er engan veginn tryggt í dag en miðað við spilamennsku liðsins undanfarið ættu þeir að vera í úrslitakeppninni. Það yrði vissulega skrýtið ef ríkjandi bikarmeistarar myndu ekki komast í úrslitakeppnina. Sá möguleiki er fyrir hendi sé litið á stöðuna í deildinni þar sem ÍR er í 7. sæti með jafn mörg stig og liðin í 8. og 9. sæti í deildinni.

Fréttir
- Auglýsing -