spot_img
HomeFréttirÁgúst Björgvinsson: Stefndum að þessu

Ágúst Björgvinsson: Stefndum að þessu

22:14 

{mosimage}

Haukakonur fögnuðu í kvöld öðrum deildarmeistaratitli sínum í röð er þær höfðu sigur á Hamri í Hveragerði 64-96. Enn eru tvær umferðir eftir en Haukar hafa sex stiga forskot á Keflavík sem er í 2. sæti og aðeins fjögur stig í pottinum og því útilokað að Keflavík geti jafnað Íslandsmeistarana að stigum. Ágúst Sigurður Björgvinsson, þjálfari Hauka, sagði í samtali við Karfan.is efir leik kvöldsins í Hveragerði að Haukaliðið væri í þeirri stöðu í dag sem stefnt hefði verið að í upphafi tímabils.

 

„Svona viljum við hafa þetta,“ sagði Ágúst hress í bragði en Haukaliðið hefur ekki tapað deildarleik að Ásvöllum í vetur og hefur heimaleikjaréttinn sín megin þegar í úrslitakeppnina verður komið. Um leikinn í kvöld hafði hann þetta að segja:

 

„Hamarskonur spiluðu svolítið eins og karlaliðið, nýttu skotklukkuna vel og hægðu á leiknum,“ sagði Ágúst en fannst sínir leikmenn fremur værukærir í upphafi leiks en hefðu náð að sýna sitt rétta andlit í síðari hálfleik.

 

Aðspurður hvort núverandi staða Haukaliðsins, að hafa innan sinna raða alla titla sem til eru í kvennakeppni á Íslandi, hefði verið eitthvað sem Ágúst óraði fyrir þegar hann tók við Haukaliðinu svaraði Ágúst því að stefnan væri alltaf sett á að ná titlum. „Ég tók við ungu liði sem er enn ungt í dag og fyrsta árið mitt með liðið urðum við óvænt bikarmeistarar, ég og stelpurnar og allir í kringum liðið gerðum okkur grein fyrir því að þessi hópur gæti náð mjög langt,“ sagði Ágúst en áréttað þó að liðið í dag væri ekki það sama og í fyrra.

 

„Töluverðar breytingar hafa átt sér stað á liðinu frá því í fyrra og þetta lið sem er að spila í dag vann ekki Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. Núna erum við með breytt lið þó vissulega séu nokkrir af sömu leikmönnunum frá því í fyrra í hópnum.“

 

Einn skæðasti varnarmaður deildarinnar, Hanna Hálfdánardóttir, hefur aðeins leikið níu deildarleiki með Haukum í vetur en hún hefur verið mikið frá sökum meiðsla. Ágúst gerir þó ráð fyrir því að Hanna verði komin í liðið þegar úrslitakeppnin hefst. „Hún hefur verið að æfa með okkur upp á síðkastið og er klárlega einn af betri varnarmönnum deildarinnar og á meðal bestu leikmanna deildarinnar,“ sagði Ágúst og ekki ómaklegt að eiga þannig leikmann í handraðanum.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -