spot_img
HomeFréttirNjarðvík og Hamar/Selfoss mætast í fyrstu umferð

Njarðvík og Hamar/Selfoss mætast í fyrstu umferð

16:52

{mosimage}

 

 

Annað kvöld lýkur deildarkeppninni í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Ljóst er að Íslands- og deildarmeistarar Njarðvíkur mæta Hamri/Selfoss í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en á morgun ræðst það hvaða lið skipa hinar rimmurnar í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar.

 

ÍR sitja fastir í 7. sæti deildarinnar og mæta liðinu sem er í 2. sæti. Þau lið sem koma til greina sem andstæðingar Bikarmeistaranna eru KR, Snæfell og Skallagrímur. Nái KR sigri gegn Grindavík á morgun er annað sætið þeirra og mæta þeir þá ÍR í fyrstu umferð. Nái þeir ekki sigri og Skallagrímur og Snæfell vinna sína leiki annað kvöld þarf að skoða innbyrðisviðureignir liðanna og sjá hver þar hefur vinninginn. KR hefur betur innbyrðis gegn Snæfellingum en Skallagrímur hefur betur innbyrðis gegn KR. Snæfell hefur hins vegar betur innbyrðis gegn Skallagrím svo úr vöndu er að ráða. KR mætir Grindavík annað kvöld, Snæfell heimsækir Keflavík og Skallagrímur leikur gegn ÍR.

 

Liðin í 5. og 6. sæti deildarinnar eru Keflavík og Grindavík. Ef Grindavík leggur KR að velli á morgun og Keflavík tapar heima gegn Snæfell geta Grindvíkingar náð 5. sætinu af Keflavík en aðeins tveggja stiga munur er á liðunum og hefur Grindavík betur í innbyrðisviðureignum gegn Keflavík. Liðin hafa unnið sinn hvorn deildarleikinn en Grindavík hefur betra stigahlutfall.

 

Línurnar skýrast því ekki endanlega fyrr en annað kvöld hvernig raðast mun í úrslitakeppnina. Þá kemur það einnig í ljós hvort það verði Þór Þorlákshöfn eða Fjölnir sem munu falla með Haukum í 1. deild. Þór mætir Njarðvíkingum í Þorlákshöfn en Fjölnir mætir Tindastól í Grafarvogi. Fjölnismenn eru tveimur stigum á eftir Þór og ef Þórsarar tapa gegn Njarðvík og Fjölnir leggur Tindastól þá halda Fjölnismenn sér uppi því þeir hafa betur innbyrðis gegn Þórsurum. Tindastóll hefur þegar tryggt sér sæti í Iceland Express deildinni að ári og eiga ekki möguleika á því að komast inn í úrslitakeppnina. Fjölnismenn verða að vinna leikinn gegn Tindastól ætli þeir sér að vera áfram í deildinni, tap þýðir fall fyrir Fjölni.

 

Þvert á spár fyrir þessa leiktíð eru það Tindastólsmenn sem halda sér uppi en báðum nýliðunum var spáð falli. Þór úr Þorlákshöfn heldur sæti sínu í deildinni þótt þeir tapi gegn Njarðvík annað kvöld svo fremi að Tindastóll nái sigri í Grafarvogi. Þórsarar geta því einvörðungu treyst á sjálfa sig og freistað þess að binda enda á fjórtán leikja sigurgöngu Njarðvíkinga. Þegar liðin áttust við í Ljónagryfjunni tókst Þórsurum að knýja leikinn í framlengingu svo það skyldi enginn afskrifa Þór á heimavelli en þar hafa þeir m.a. lagt Snæfellinga í framlengdum leik.

 

Línurnar skýrast á morgun þegar síðustu umferðinni lýkur en allir leikirnir hefjast kl. 19:15

 

Þór Þorlákshöfn-Njarðvík

Keflavík-Snæfell

KR-Grindavík

Fjölnir-Tindastóll

Skallagrímur-ÍR

Haukar-Hamar/Selfoss

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -