22:55
{mosimage}
Eins manns dauði er annars brauð og sú var reyndin í kvöld þegar Fjölnismenn héldu sér uppi í Iceland Express deild karla á kostnað Þórs úr Þorlákshöfn. Fjölnir lagði Tindastól 94-87 en Njarðvík landaði sínum 15. sigri í röð er þeir felldu Þórsara í Þorlákshöfn. Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnismanna, var kátur þegar Karfan.is náði tali af honum og sagði þungu fargi af sér og sínum mönnum létt.
„Það var vissulega erfitt að þurfa að vera stóla smávegis á annað lið því Þór hefur verið að standa sig vel og hefðu með góðu móti getað unnið Njarðvík,“ sagði Bárður en aðeins Fjölnissigur og Þórstap myndi duga Grafarvogsbúum í kvöld. Sú varð raunin og var Bárður ánægður með leik sinna manna.
„Við vorum að spila vel heilt yfir leikinn og við vorum staðráðnir í því að gera okkar besta í kvöld. Nemanja var alveg stórkostlegur og við náðum 20 sóknarfráköstum í leiknum. Við sáum hvað Nemanja var heitur og lögðum áherslu á það að koma boltanum í teiginn til hans og í kjölfarið fengum við mikið af skotum fyrir utan. Við vorum virkilega grimmir í kvöld,“ sagði Bárður sem getur fagnað með Fjölnismönnum áframhaldandi veru sinni í deild þeirra bestu.