spot_img
HomeFréttirSteinar skaut KR í kaf

Steinar skaut KR í kaf

22:22 

{mosimage}

 

(Steinar mundar hér byssuna, þessi fór beina leið í netið)

 

 

Steinar Arason sjóðhitnaði í fjórða leikhluta gegn KR í kvöld þar sem ÍR tók 1-0 forystu í einvígi liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla. Steinar gerði 20 stig í leiknum og þar af þrjár gríðarlega mikilvægar þriggja stiga körfur í fjórða leikhluta. Staðan í hálfleik var 39-40 ÍR í vil en leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi. KR verður að vinna í Seljaskóla á laugardag að öðrum kosti eru þeir komnir í sumarfrí svo gera má ráð fyrir rosalegum slag í Seljaskóla á laugardag.

 

Fannar Ólafsson og Jeremiah Sola fengu báðir sínar fyrstu villur þegar um 30 sekúndur voru liðnar af leiknum og ekki laust við að hroll setti um KR stúkuna enda Fannar og Sola gjarnir á að fá 5 villur og leggja sig ávallt fram í vörninni. Þetta fékk þó ekki á KR sem 5-1 yfir snemma leiks en ÍR komu sterkir til baka og jöfnuðu metin í 5-5. Sola dró sóknarvagn KR og skoraði hverja körfuna á fætur annarri og heimamenn leiddu 19-15 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Edmund Azemi kom ákafur inn fyrir KR og fékk fljótt tvær villur.

 

Mikill hraði var í leiknum og bæði lið að leika sterka vörn. Í fyrsta leikhluta kom maður leiksins inn á en hafði hægt um sig. Strax í öðrum leikhluta lét Steinar Arason vel að sér kveða er hann setti niður tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og jafnaði metin í 21-21. ÍR komst í 21-23 og höfðu þá gert 8 stig í röð. Benedikt Guðmundsson tók leikhlé í kjölfarið og strax að því loknu setti Pálmi Sigurgeirsson niður þrist og náði forystunni að nýju fyrir KR 24-23. Liðin skiptust á því að hafa forystuna með þá Sola og Vassell í broddi fylkingar en það var Hreggviður Magnússon sem gerði síðustu körfu fyrri hálfleiks þegar um tvær sekúndur voru eftir af leikhlutanum og því gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 39-40 ÍR í vil.  

{mosimage}

Vörn KR var þétt í þriðja leikhluta og náðu ÍR aðeins að gera 11 stig í leikhlutanum. Þeir Keith Vassell, Nate Brown og Hreggviður fengu allir sína þriðju villu í leikhlutanum og KR byggði upp smá forskot. Í stöðunni 49-45 höfðu KR gert 8 stig í röð og ÍR tóku leikhlé. Það hlé skilaði litlu því KR hélt sinni forsytu þar til leikhlutanum lauk í stöðunni 55-51 KR í vil. Edmund Azemi braut á Steinari Arasyni í þriggja stiga skoti þegar þrjár sekúndur voru til loka leikhlutans og Steinar setti öll vítin niður en Azemi sem og aðrir KR-ingar mótmæltu villunni hástöfum.

 

ÍR jafnaði snemma metin í fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu frá Nate Brown 56-56 en Brown hafði haft hægt um sig framan af leik. Þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka var staðan 62-66 ÍR í vil þegar KR vörnin gleymdi sér eitt augnablik og Steinar náði að koma niður enn einni þriggja stiga körfunni og breyta stöðunni í 62-69 og eftir það komust KR-ingar aldrei aftur nálægt ÍR. Lokatölur leiksins voru 65-73 ÍR í vil þar sem Steinar Arason átti mikilvægan þátt í því að leiða ÍR til sigurs með mikilvægum þriggja stiga körfum.

 

Jeremiah Sola var stigahæstur hjá KR með 27 stig en Steinar gerði 20 stig í liði ÍR. Staðan er 1-0 í einvíginu ÍR í vil en næsti leikur liðanna fer fram á laugardag í Seljaskóla í Breiðholti og hefst hann kl. 16:00.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -