spot_img
HomeFréttirÍslendingar sáu aldrei til sólar á Spáni

Íslendingar sáu aldrei til sólar á Spáni

Ísland mátti þola tap í fyrsta leik sínum í lokariðil undankeppni heimsmeistaramótsins 2023 gegn Spáni í Pamplona, 87-57.

Eftir ágætis upphafsmínútur Íslands í leiknum náði Spánn að byggja sér upp smá forystu um miðjan fyrsta leikhluta, en þegar fjórðungurinn var á enda leiddu þeir með 11 stigum, 26-15. Undir lok fyrri hálfleiksins láta þeir svo kné fylgja kviði og eru 23 stigum á undan þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 51-28.

Ísland gerir ágætlega í upphafi seinni hálfleiksins. Ná þó lítið að vinna á forskoti heimamanna og eru enn 24 stigum undir fyrir lokafjórðunginn, 69-45. Í fjórða leikhlutanum reyndi Ísland hvað þeir gátu til þess að minnka bilið, en allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan að lokum 30 stiga sigur heimsmeistarana, 87-57.

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Elvar Már Friðriksson með 14 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Tryggvi Snær Hlinason með 6 stig, 7 fráköst og 2 varin skot.

Fyrir Spán var það Willy Hernangomez sem dró vagninn með 19 stigum og 8 fráköstum.

Í riðil Íslands unnu, ásamt Spáni, Georgía og Ítalía sína leiki. Því færist Ísland niður úr öðru sæti hans niður í það fjórða, en aðeins þrjú efstu liðin komast áfram á lokamótið á næsta ári.

Seinni leikur Íslands í þessum ágúst glugga mótsins er komandi laugardag heima í Ólafssal gegn Úkraínu.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -